Tímamót í knattspyrnuþjálfun á Akureyri

Tímamót í knattspyrnuþjálfun á Akureyri

Framhald af Áhrifamaður í þýsku íþróttalífi sest að í bænum.

Í aprílbyrjun 1957 boðaði Knattspyrnuráð Akureyrar (KRA) til blaðamannafundar á Hótel KEA þar sem nýr þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá ÍBA var kynntur. Höskuldur var kominn í stjórn KRA þegar kom að ráðningu hins nýja þjálfara. Formaður ÍBA, Ármann Dalmannsson skýrði blaðamönnum frá áformum um að hefja knattspyrnu í bænum á hærri stall.

Þegar þarna var komið sögu hafði ÍBA ekki haft þjálfara til að halda uppi reglulegum æfingum fyrir knattspyrnumenn félagsins. Landsliðsþjálfarinn Karl Guðmundsson hafði reyndar komið í nokkrar ferðir norður á sumrin til að leiðabeina iðkendum, annað ekki. Nú skyldi láta sverfa til stáls með metnað að leiðarljósi og freista þess að ná árangri meðal bestu liða í efstu deild sumarið 1957.

Haraldur M. Sigurðsson, formaður Knattspyrnuráðs tók næstur til máls á fundinum. Hann sagði „nauðsynlegt að hafa kennara, sem gæti fylgst daglega með knattspyrnumönnunum og byggt starfsemina upp fyrir sumarið.“ Því næst var nýr þjálfari kynntur til sögunnar en sá hinn sami hafði dvalist hér í mánuð þegar kom að fundinum.

Haraldur sagði félagið vera heppið að fá að njóta þjónustu hins þýska Heinz Marotzke  og þakkaði Höskuldi fyrir að hafa fengið hann til starfa. Marotzke var nýútskrifaður frá Íþróttaháskólanum í Köln þegar hann kom til Akureyrar. Þar hafði hann stundað nám í þrjú ár með knattspyrnu sem aðalnámsgrein með sjálfan Sepp Herberger sem aðalkennara. Herberger þessi stýrði Þjóðverjum til sigurs á HM í Sviss árið 1954. Marotzke hafði einnig nokkra reynslu af knattspyrnuþjálfun eftir að hafa þjálfað lið í Köln með prýðilegum árangri.

Æfingar hjá ÍBA hófust vorið 1957 undir stjórn Heinz Marotzke. Fyrstu fjórar vikurnar fóru þær fram innanhúss en færðust með hækkandi sól út á mölina á gamla Þórsvellinum á Oddeyri.

Framhald.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI