Listasafnið gjörningahátíð

Tina Møller verður farkennari í grunnskólum Akureyrar í vetur

Tina Møller verður farkennari í grunnskólum Akureyrar í vetur

Fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar gerði fyrr í ár samning við Menntavísindasvið Háskóla Íslands vegna starfa og dvalar dansks farkennara að nafni Tina Møller á Akureyri yfir skólaárið 2024-2025. Um er að ræða danskt-íslenskt samstarfsverkefni en bæði danska- og íslenska menntamálaráðuneytið koma að því að styrkja þetta verkefni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

„Eitt af meginmarkmiðum þessa samstarfs er að styðja við og efla dönskukennslu í grunnskólum Akureyrarbæjar. Lögð verður sérstök áhersla á að auka munnlega færni nemenda í dönsku, kynna danska menningu fyrir nemendum og skoða mismunandi kennsluaðferðir í samvinnu við dönskukennara,“ segir á vef bæjarins.

Verkefni sem þetta er ekki nýtt af nálinni en Akureyrarbær hefur tekið á móti dönskum farkennurum í mörg ár sem vakið hefur ánægju bæði nemenda og kennara. Mikill ávinningur felst í svona heimsóknum þar sem dönskukennarar skólanna fá meðal annars stuðning við að þróa starf sitt í samvinnu við farkennarann og nemendur fá tækifæri til að komast betur í kynni við danska menningu.

Tina hóf störf í Brekkuskóla 1. september en áætlað er að hún fari í átta grunnskóla Akureyrarbæjar á meðan á dvöl hennar stendur.

Á mynd: Talið frá vinstri. Aðalheiður Bragadóttir deildarstjóri Brekkuskóla, Michael Dal dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Tina Møller farkennari og Guðrún Gyða Franklín hjá Nýmennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Mynd: Akureyri.is

Sambíó

UMMÆLI