Tíunda sumarmót goHuskyMynd/goHusky

Tíunda sumarmót goHusky

Hjónin Gunnar Eyfjörð Ómarsson og María Björk Guðmundsdóttir, eigendur og rekstraraðilar sleðahundafyrirtækisins goHusky í Hörgársveit, halda um þessar mundir upp á árlega hundasleðakeppni sem þau gera nú í tíunda skipti. Keppnin fer fram í Hálsaskógi, norðan við Akureyri, helgina 27. til 29. júní næstkomandi.

„Fyrsta árið ákvað ég að halda smá keppni til að gleðja konuna mínu og síðan hefur þetta bara orðið árlegur viðburður og vaxið frá tveim greinum upp í mest nítján greinar,“ segir Gunnar.

Í ár eru keppnisgreinarnar fjórtán talsins og yfir fimmtíu keppendur hafa þegar skráð sig til leiks. Meðal keppnisgreina eru hlaup, scooter (hlaupahjól) og bikejöring (reiðhjól), þar sem keppendur eru dregnir áfram af einum eða tveimur hundum yfir mislangar vegalengdir.

Að sögn Gunnars er keppnin opin öllum hundaeigendum, óháð tegund hunda, svo framarlega sem hægt er að kenna hundunum að hlaupa fyrir framan. Skráningu lýkur nú á föstudaginn, þann 13. júní.

Fyrirtækið goHusky hefur verið starfrækt í tæp sjö ár. Hjónin eru í dag með 28 hunda og taka á móti yfir þúsund gestum árlega í göngu- og hundasleðaferðir og/eða  „hundaknús“ heimsóknir. Samhliða ferðaþjónustunni hafa þau einnig hafið sölu á hunda- og kattafóðri og nýta hundahár til spuna og prjónaskapar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó