Tjaldsvæðum á Akureyri hefur verið skipt niður í fimm hólf þar sem 100 manns mega koma saman. Gestir sem koma eftir að hólfin fyllast verður vísað burt. Þetta kemur fram á Mbl.is.
Þar er haft eftir Tryggva Marinóssyni, framkvæmdastjóra Hamra, rekstraraðila tjaldsvæðanna á Akureyri, að hertar aðgerðir muni hafa veruleg áhrif á rekstur tjaldsvæðanna.
Hann segir það hafa verið óþægilegt að fá fréttir um hertar aðgerðir með svona stuttum fyrirvara. „Við erum búin að leggja í mikinn aukakostnað sem við hefðum ekki gert ef við hegðum vitað þetta fyrr,“ segir Tryggvi á mbl.is.
Hann telur að það verði vel hægt að stjórna fjöldanum á tjaldsvæðum bæjarins yfir helgina þrátt fyrir stöðugan straum af fólki undanfarna daga.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, talaði gegn því að skipta í sóttvarnarhólf, á fréttafundi ríkisstjórnarinnar í gær.
„Það er mikilvægt að við lítum á þetta sem sóttvarnarráðstöfun og förum ekki að leita leiða í kringum þetta, búa til einhver endalaus sóttvarnarhólf eða eitthvað slíkt, hættum því,“ sagði Víðir á fréttafundinum í gær.
UMMÆLI