Töfrabókin: Fóa og Fóa Feykirófa – Ný sýning Umskiptinga frumsýnd í Leikhúsinu á Möðruvöllum á sunnudaginn

Töfrabókin: Fóa og Fóa Feykirófa – Ný sýning Umskiptinga frumsýnd í Leikhúsinu á Möðruvöllum á sunnudaginn

Leikhópurinn Umskiptingar frumsýnir nýja brúðuleikhússýningu í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgarsveit sunnudaginn 6. október næstkomandi. Sýningin hefst klukkan 15:00 og ber nafnið „Töfrabókin: Fóa og Fóa Feykirófa.“ Um er að ræða annað ævintýrið í seríunni Töfrabókin, en það fyrsta var frumsýnt í sama leikhúsi í fyrra.

Í kjölfar frumsýningarinnar verður sýningin sett á svið í Leikhúsinu á Möðruvöllum alla sunnudaga í október, auk fyrsta sunnudags nóvembermánaðar. Töfrabækurnar munu einnig ferðast um nærliggjandi sveitarfélög alla laugardaga í október og sýna á Kópaskeri, Húsavík, Þingeyjarsveit, Dalvík og Siglufirði. Eftir sýningar verður svo boðið upp á föndur þar sem meðal annars verður hægt að sjá hvernig hægt er að gera sína eigin Fóu-grímu. Þá verður hægt að fá sér kaffi og kruðerí á meðan börnin föndra.

Leikstjóri sýningarinnar er Fanney Valsdóttir en hún sá jafnframt um gerð búninga. Leikarar eru Margrét Sverrisdóttir og María Pálsdóttir. Margrét sá jafnframt um gerð leikmyndar og brúðugerð. Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason eru höfundar tónlistar og framleiðandi er Jenný Lára Arnórsdóttir.

Miðasala fer fram á Tix.is og frekari upplýsingar er að finna á Facebook og Instagram síðum Umskiptinga.

Í tilkynningu frá Umskiptingum um nýju sýninguna segir eftirfarandi:

Umskiptingar vinna um þessar mundir að næsta ævintýri sem mun lifna við í Töfrabókinni.

Fyrir ári síðan frumsýndu Umskiptingar fyrsta ævintýrið í brúðuleikhússeríu sem kallast Töfrabækurnar. Það var Sagan af Gýpu og hefur hún síðan flakkað vítt og breitt um landið. Nú er komið að sögunni um Fóu og Fóu Feykirófu en hún fjallar um það þegar Fóa Feykirófa rekur Fóu úr hlýja, fallega hellinum sínum og sest þar sjálf að. Fóa veit ekki hvað skal til bragðs taka en vinir hennar, lambið, kindin, sauðurinn og hrúturinn bjóða öll fram hjálp sína að ná honum til baka. Það gengur þó ekki áfallalaust fyrir sig.

Töfrabækurnar eru brúðuleikhússería fyrir yngstu börnin þar sem unnið er með þjóðsögur. Þegar bókin opnast breytist hún í leikmynd fyrir söguna og þær persónur sem koma fram verða tvívíðar brúður sem stjórnað verður ofan frá. Tveir leikarar stjórna brúðum og sjá um allan leik og lifandi tónlistarflutning. Þess má geta að sýningarnar eru ávallt afslappaðar þar sem kveikt er í salnum, ekki er notast við hljóðkerfi fyrir tal né tónlist og áhorfendum er velkomið að fara afsíðis af þau þurfa að hvíla sig. Þetta er því einstaklega aðgengilegt sem fyrsta leikhúsupplifun barna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó