Töfralausnir í byggðamálum?

Albertína Elíasdóttir, 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi, skrifar:

Þessi kosningabarátta hefur verið stutt og snörp og mörg mál og málefni sem ég myndi svo gjarnan vilja hafa tækifæri til að tæpa sérstaklega á. Eitt af þeim málum sem mér fannst samt mikilvægt að ræða stuttlega eru byggðamálin.

Fjölmargir hafa kallað eftir byggðastefnu frá flokkunum og kvartað undan skorti á svörum, að einhverju leiti skiljanlega. Þar sem ég er fædd og uppalin á Vestfjörðum þekki ég vel að búa á svæði sem hefur veri í stöðugri varnarbaráttu og því miður er fjarri því að Vestfirðirnir séu einir um að vera í þeirri stöðu. Við eigum svæði innan okkar kjördæmis sem eru í nákvæmlega sömu stöðu – svæði sem búa við stöðuga fólksfækkun og virðast eiga erfitt með að ná vopnum sínum og snúa vörn í sókn.

Ég vildi að ég gæti sagst vera með einhverja töfralausn til að bjóða í byggðamálum, en eins og við vitum öll þá er málið alls ekki svo einfalt. Ég hef hinsvegar þá framtíðarsýn að í sameiningu getum við byggt upp sterk samfélög og búsetu um land allt á næstu árum. Við eigum að setja okkur þá stefnu að gera fólki kleift að búa um land allt með styrkingu og uppbyggingu innviða, svo sem samgöngubótum, styrkingu raforkuflutningskerfisins og tryggjum þar með aðgengi að rafmagni þar sem þörf er og aðgengi að háhraðaneti um land allt. Allir þessir þættir eru gríðar mikilvægir til að auðvelda uppbyggingu starfa, auk þess að vera grundvöllur þess að skapa aðlaðandi vettvang fyrir nýsköpunarfyrirtæki.

Ég sé fyrir mér uppbyggingu fyrirtækja víðsvegar um landið sem byggja á þekkingu, sérstöðu og reynslu sem má svo sannarlega finna alls staðar. Við þurfum að byggja upp kerfi sem styður við slíka uppbyggingu og má finna dæmi um, til að mynda í Inverness þar sem farið var í stórfellda uppbyggingu innviða og nýsköpunarumhverfis. Það þurfum við að gera hér. Ég sé fyrir mér það markmið að á Íslandi muni blómstra sjálfbær samfélög með fjölbreyttu atvinnulífi. Samfélög þar sem greitt aðgengi er að innanlandsflugi, auk þess sem millilandaflug um Akureyri og Egilsstaði verði orðið raunveruleiki og dreifing ferðamanna verði jafnari um landið allt. Jafnframt þarf að ráðast í að klára vegakerfi landsins. Klárum að malbika og fjölgum göngum, samhliða því sem við hefjum nauðsynlegt viðhald á eldri vegum.

Ég sé fyrir mér nýsköpun og breytingar í landbúnaði þar bændum verður gert kleift að lifa mannsæmandi lífi. Ég sé fyrir mér grænt Ísland þar sem við erum í forystu í framleiðslu grænnar raforku þar sem horft er til bættrar nýtingar auðlindanna okkar, aukinnar verðmætasköpunar og fjölbreyttrar nýtingar á því sem við í dag lítum á sem sorp. Ég sé fyrir mér aukna skógrækt – ég sé fyrir mér kolefnishlutlaust Ísland.

Eins og ég sagði í upphafi þá hef ég ekki allar lausnirnar en ég veit hvert ég vil stefna og ég veit hvernig samfélög ég vil sjá byggjast. Styrk, einstök og iðandi samfélög þar sem í íbúar hafa tækifæri til að skapa sér gott líf. Að þessu vill Samfylkingin vinna.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó