Toggi Nolem opnar sýningu á Bókasafni HA

Toggi Nolem opnar sýningu á Bókasafni HA

Á morgun, fimmtudaginn 6. mars kl. 16 opnar sýningin Landbrot á Bókasafni HA á Akureyri. 

„Landbrot“ er þriðja einkasýning listamannsins Togga Nolem. Sýningin samanstendur af verkum máluðum frá hausti 2024 og fram í janúar 2025 þar sem fjöll og eyjur úr landslagi Íslands eru í aðalhlutverki. Undanfarin tvö ár hefur Toggi verið að þróa stíl þar sem hann fléttar saman abstrakt myndlist við hefðbundnari landslagsmyndir. Hann sækir myndefni sitt í náttúruna og í málverkinu brotnar landslagið upp í einföld form þar sem áferð þess er rakin í sundur með kraftmikilli litapalletu. Sameining og aðskilnaður skapar vídd í myndunum sem dregur fram óvænt skynhrif áhorfandans. Verkin eru unnin með akríl og blandaðri tækni á striga og þiljur. Öll verkin á sýningunni eru til sölu.

Um listamanninn

Toggi Nolem (Þorgils Gíslason) er fæddur árið 1983 á Akureyri. Það varð snemma ljóst að listin togaði sterkt í hann, hvort heldur sem var myndlist eða tónlist, enda hefur hann verið viðriðinn bæði síðan á unglingsárum. Innblástur fjallanna hefur fylgt honum allt frá æsku og eru landslagsverk hans aðallega unnin með akríl og blandaðri tækni á striga en einnig hefur hann fengist við tilraunakenndari list þar sem sköpunarkrafturinn ræður efnisvali. Toggi stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri og kom að fjölda viðburða í Listagilinu frá 2003-2014. Á árunum 2008-2011 nam hann upptökustjórn við SAE Institute í Glasgow og hefur verið eftirsóttur upptökustjóri um árabil, verið í hinum ýmsu hljómsveitum og átt þó nokkur lög á öldum ljósvakans.

Það má segja að ferill Togga í myndlistinni hafi sprungið út á síðustu árum, myndir hans hafa verið seldar í Galleríinu við Skólavörðustíg undanfarin misseri og sérpantanir af hinum ýmsu fjöllum sem fólk á tengingar við njóta mikilla vinsælda.

Þetta er þriðja einkasýning Togga en fyrri sýningar eru „Tónstefnur“ á Kaffi Karólínu árið 2012 og sýningin „Stratosphere“ í Populus Tremula árið 2014.

Öll velkomin á opnunina á morgun

Eins og áður sagði opnar sýningin formlega á morgun kl. 16 á Bókasafni HA og eru öll hjartanlega velkomin. Boðið verður upp á léttar veitingar. 

Facebook viðburður

Sýningin er opin á opnunartíma Bókasafnsins sem er 8-16 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Á þriðjudögum og fimmtudögum er opið 8-18.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó