NTC

Tónlistarfólk frá Akureyri og nágrenni sem treður upp á Einni Með Öllu

Tónlistarfólk frá Akureyri og nágrenni sem treður upp á Einni Með Öllu

Það verður nóg af hæfileikaríku tónlistarfólki frá Akureyri og nágrenni sem treður upp á bæjarhátíðinni Einni Með Öllu á Akureyri um Verslunarmannahelgina.

Á meðal þeirra sem munu troða upp er rapparinn Pétur Már Guðmundsson, sem gengur undir listamannanafninu Saint Pete, hljómsveitin 7. 9. 13., söngkonan Birna Karen Sveinsdóttir, Brenndu bananarnir og Drottningarnar.

Saint Pete hefur unnið töluvert með hip-hop tvíeykinu Úlf Úlf í gegnum tíðina, auk þess hefur hann reglulega hitað upp fyrir tónleika þeirra og komið fram með þeim. Saint Pete gaf út lagið Akureyri fyrr á árinu og mun gefa út sína fyrstu plötu á næstunni. „Saint Pete er án efa einn skemmtilegasti rappari á Íslandi í dag og mun sjá um þess að halda uppi stuðina um helgina,“ segir á vef Einnar Með Öllu.

7.9.13 er ný hljómsveit frá Akureyri, en hana skipa þau Ágúst Máni á bassa, Elmar Atli á gitar, Jóel Örn á gítar, Ólafur Anton á trommur, Styrmir Þeyr á píanó og Særún Elma syngur. 31. maí síðastliðinn gaf hljómsveitin út sína fyrstu plötu, Lose control. Tónlistin er í popp/rokk stíl og bæði er sungið á ensku og íslensku á plötunni.

Birna Karen Sveinsdóttir er 19 ára söngkona sem stundar söngnám hjá Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hún hefur komið fram á nokkrum tónleikum í skólanum og meðal annars á viðburðum á vegum Oddfellow.

Stelpurnar Sigrún og Hekla eru 18 ára töffarar frá Akureyri sem mynda hljómsveitina Brenndu bananarnir. Hljómsveitin var stofnuð árið 2021 og sló í gegn með laginu „Ég nenni ekki að labba upp Gilið„.

Þær Guðrún Arngríms, Jónína Björt og Maja Eir syngja saman undir nafninu Drottningar. Þær koma reglulega saman og flytja tónlist eftir frægar konur úr tónlistarsögunni og þaðan kemur nafnið. Þær hafa tekið fyrir rokk, popp, soul, country og eurovision svo eitthvað sé nefnt.

Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á einmedollu.is

Sambíó

UMMÆLI