KIA

Tónlistarkonan Greta Salóme með annan fótinn á Akureyri í vetur

Tónlistarkonan Greta Salóme með annan fótinn á Akureyri í vetur

Tónlistarkonan, Eurovisionfarinn og Disneystjarnan Greta Salóme hefur hafið störf í Menningarhúsinu Hofi. Greta Salóme, sem hefur lengi verið konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, starfar náið með Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar og tónskáldinu Atla Örvarssyni að framgangi kvikmyndatónlistarverkefnisins SinfoniaNord.Hún mun einnig kenna í Tónlistarskóla Akureyrar sem hefur aðsetur í Hofi.

„Ég er ótrúlega spennt fyrir öllum þessu geggjuðu verkefnum sem eru í gangi í tónlistinni á Akureyri. Við höfum til að mynda verið í fjölda upptaka fyrir Netflix og fleiri erlend stórfyrirtæki sem vantar tónlista fyrir kvikmyndir og sjónvarpsseríur,“ segir Greta Salóme sem er búsett í Mosfellsbæ þótt hún sé með annan fótinn á Akureyri.

„Eftir að hafa túrað endalaust síðustu árin, og þá sérstaklega erlendis, hef ég séð stóra samninga hverfa úr höndunum á mér eftir að covid skall á. Nú ætti ég að vera að túra á milli landa með sýninguna mína fyrir Disney en þess í stað túra ég milli landshluta og er bara að elska það. Það er svo ótrúlegur uppgangur í sinfóníska tónlistarstarfinu á Akureyri og ég er svo spennt og stolt að fá að taka þátt.“

Sambíó

UMMÆLI