Topp 10 – Ástæður fyrir því að eyða jólunum á Akureyri

Það vita allir Akureyringar að Akureyri er töfrum líkast í kringum jólin. Yfirleitt er mikið um snjó og jólaljós prýða bæinn og birta upp skammdegið. Fyrir unga sem eldri brottflutta Akureyringa er nauðsynlegt að kíkja heim um jólin. Kaffinu þótti það mikilvægt að leggjast í rannsóknir um hvers vegna Akureyringar sækja heim til Akureyrar um jólin.

1. Jólahúsið

Fyrir mörgum er það algjörlega nauðsynleg hefð að kíkja í jólahúsið fyrir jól. Þú finnur hvergi betri leið til að tilkynna að þú sért kominn heim um jólin. Klassísk mynd með skiltinu „fjórir dagar til jóla“ og e.t.v. einn rjúkandi heitan kaffibolla eða aðra jólaleikmuni slær alltaf í gegn á Instagram.

2. Jólaljósarúntur
Rúntur um bæinn að skoða jólaljósin og leitin að best skreytta húsinu er auðveldlega framkvæmt á Akureyri. Það tekur þig 20 mínútur eða hálftíma að skoða öll best skreyttu hús Akureyrar. Í Reykjavík tæki þetta sennilega í kringum sex klukkustundir.

Mynd: Allt sem ég sé / Linda Ólafsdóttir.

3. Snjórinn
Það hefur aldrei brugðist að einhver snjór láti sjá sig á Akureyri um jólin. Reykjavík á það hins vegar til að svíkja þig um þessa jólagjöf og því miklu gáfulegra að henda sér norður.

4. Stærsta djamm ársins
26. desember hefur á undanförnum árum orðið eitt stærsta djamm ársins á Akureyri. Þá flykkjast allir ungir Akureyringar sem eru heima um jólin á Götubarinn og eyða kvöldinu í að óska fólki gleðilegra jóla sem það hefur ekki séð síðan um jólin árið áður. Eitt risastórt reunion er í rauninni það sem fólk sækist í með því að kíkja út þennan þriðja dag jóla.

Vonandi verður búið að ryðja fyrir röðinni sem myndast fyrir utan Götubarinn 26. desember.
Mynd: Visit Akureyri Facebook.

5. Fjallið
Hlíðarfjall er sannkölluð paradís fyrir skíðafólk yfir jólin enda flottasta skíðasvæði landsins. Opnunartímar eru yfirleitt góðir á þessum árstíma og fólk flykkist í fjallið.
,,Æj ég vil ekki fara norður um jólin, ég ætlaði mér að skíða í Bláfjöllum milli jóla- og nýárs“, sagði enginn. Aldrei.

Mörgum finnst nauðsynlegt að kíkja í fjallið. Mynd: Viðburðarstofa Norðurlands.

6. Pottapartý á Aðfangadag
Af einhverjum ástæðum hefur það orðið hefð annarrar hverrar fjölskyldu á Akureyri að kíkja í sund á Aðfangadag. Það er bara eitthvað við það að kíkja aðeins í pottinn með öllum hinum snemma á Aðfangadagsmorgun sem kemur manni beinustu leið í jólaskapið.

7. Brynjuís
Það er eitthvað svo geggjað að fá sér ískaldan brynjuís í 10 stiga frosti og hlusta á jólalög. Óskiljanleg hefð en hefð samt sem áður.

8. Tónleikar alla daga
Það er alltaf nóg um að vera í tónlistinni í kringum jólin og fólk hefur varla undan, bæði andlega og fjárhagslega, að velja og hafna. Þar er Græni Hatturinn fremstur í flokki þar sem hann heldur tónleika nánast daglega með landsþekktum tónlistarmönnum og blæs þannig lífi í miðbæinn öll jólin.

Það gerist ekki mikið jólalegra en þetta.
Mynd: Linda Ólafsdóttir / Facebook: Allt sem ég sé.

9. Þorláksmessa
Veitingahús bæjarins eru flest í skötunni í hádeginu á Þorláksmessu og fyrir mörgum er það ómissandi hefð að mæta í skötuhlaðborð. Skatan sjálf er aðdráttaraflið en þó er það ekki síður ástæða að hitta alla sem mæta í hlaðborðin ár eftir ár. Um kvöldið er svo klassískt að rölta um miðbæinn og detta inn í eins og einn kaffibolla eða heitt kakó á kaffihúsum bæjarins, þar er Bláa Kannan alltaf þétt setin á Þorláksmessukvöldi.

10. Glerártorg
Hverjum dreymir ekki um að rölta á Glerártorgi í stanslausu stressi á Þorláksmessukvöldi í leit að síðustu jólagjöfinni sem þú áttir að vera löngu búinn að kaupa? Skítt með Kringluna, hún hefur ekkert í Glerártorg.
(Það er sennilega augljóst að það var ekkert mál að ná í 10 ástæður, þetta er ekki uppfyllingarefni).

 

Sjá einnig: 

Topp 10 – Mesta jólaplebbið

UMMÆLI