Topp 10 staðir til þess að kela á Akureyrarvöku

Topp 10 staðir til þess að kela á Akureyrarvöku

Það er komið haust, sumrinu er opinberlega lokið. Góðan daginn kæri vindur, vertu velkomin frú rigning. Segja má að ein lokahátíð slaufi þessu öllu saman, Akureyrarvaka. Í tilefni hennar hentu Krasstófer og Ormur í einn klassískan topp 10 lista. Að þessu sinni fjallar listinn um hvar sé best að kyssast. Við erum stuðningsmenn frjálsra ásta og kelerís af hverju tagi en hvað ætli séu tíu bestu staðirnir til þess að eiga við mann og annan? Hér koma þeir staðir sem við teljum þá allra bestu. Njótið.

1. Vamos 

Eins og hundar að lepja vatn á heitum sumardegi þá sjá ykkur allir og hugsa „mikið rosalega er gott að vera ekki viðtakandi þessa koss.”

2. Aftan við bíóið/Nætursöluna

Ég veit ekki hvort að hægt sé að komast í húsasundið þar lengur (og fá smá næði) en ég veit að þar situr sjálfur Amor með lásbogann spenntan og missir ekki marks.

3. Leigubílaröðin við BSO

Þarna ertu með yfirlýsingar. Kurdo í hönd og kannski einn snakkpoka með sýrðum rjóma og lauk, keyptan úr BSO. Það er klukkutíma bið í leigubílinn þinn og þú sönglar „Í brjálæðishrifningu býð ég þér Lays og powerade skilyrðislaust.“

4. Heima, fyrir framan sjónvarpið

Börnin eru farin að sofa og pabbi er búinn að stelast í einn Víking sterkan. Heimilisfólkið er þreytt eftir að hafa verið á ferð og flugi yfir daginn – candyfloss, gasblöðrur, tónleikar. Pabbi nær honum kannski ekki upp en hann þakkar Guði fyrir að Blush sé búið að opna á Akureyri. Einn rembingskoss af gamla skólanum verður bara duga í þetta sinn.

5. Hjörtu Akureyrar

Vertu eins og túristarnir, klifraðu upp í annað hvort hjartað og smelltu einum á munninn. Eða taktu það skrefinu lengra og skiptu út öllu þínu munnvatni fyrir annars.

6. Greifinn

Þú býður ástinni út að borða og þið hámið í ykkur pizzu nautabans. Gosið flæðir eins og vín. Þú hefur aldrei elskað lífið jafn mikið og sýnir það með kossi yfir borðið.

7. Í bíó (áður en það lokar)

Leiðinlegasta myndin er valin og eina sem keypt er í sjoppunni er tyggjó. Aftast í myrkrinu þar sem engin sér né heyrir. Varirnar virðast límdar saman og hvorugur aðili veit hver á hvaða munnvatn lengur. En bíddu, er þetta Glen Powell að eltast við fellibylji? Af hverju er hann að gera það? Áhugavert……

8. Á Ráðhústorginu, eftir djammið

Menn, konur og börn eru vart gangfær en nú byrjar skrallið að alvöru og málin eru rædd fram undir morgun. Örvæntingin grípur mannskapinn því nú er síðasti séns að finna einhvern til þess að deila morgninum með. Þínar skoðanir á stjórnmálum, þitt uppáhalds fótboltalið og tónlistarsmekkur skiptir engu. Það sem skiptir máli er að þú ert til í kelerí og að þú getir horft í augun á manneskjunni í dagsbirtunni.

9. Inn á klósetti á óþekktum stað.

Höggin dynja á hurðinni en þér er alveg sama. Það er í lagi að láta fólk bíða því þetta er eini staðurinn til þess að fá næði og þú þarft að prufukeyra kossfélaga þinn.

10. Spegillinn

Sjálfs er höndin hollust og það er mikilvægt að elska sjálfan sig. Smelltu einum á sjálfið og skildu eftir för á speglinum.

Gleðilega Akureyrarvöku

Haustkveðja,

Krasstófer og Ormur

Sambíó

UMMÆLI