Tvær vikur eru nú liðnar frá því að síðast var skráð virkt Covid-19 smit á Norðurlandi eystra. Enginn hefur verið skráður í sóttkví í lengri tíma.
Síðasta greindist nýtt smit á svæðinu 1. desember. Það smit greindist hjá einstaklingi í sóttkví.
Þrátt fyrir að ekkert virkt smit hafi verið á Norðurlandi eystra í tvær vikur og ekkert nýtt smit hafi greinst síðan 1. desember er svæðið enn skráð rautt á COVID-19 viðvörunarkerfinu.
Það þýðir meðal annars að það er grímuskylda í almenningssamgöngum, verslunum, þegar farið er milli sóttvarnahólfa og í starfsemi sem krefst nándar. Fólk ætti að takmarka samveru við sína allra nánustu og fjöldatakmörkun er 5 til 20 manns. Þá er tveggja metra reglan enn í gildi.
Um Norðurland eystra segir í viðvörunarkerfinu: „Útbreiðsla þekktra smita í umdæminu er lítil, eingöngu á Akureyri. Fjöldi nýrra tilfella utan sóttkvíar er í lágmarki. Álag á heilbrigðiskerfi og viðbragðsaðila á svæði er eðlilegt miðað við árstíma og aðstæður. Vegna vaxtar smita á öðrum svæðum og viðvarandi álags á aðalsjúkrahús landsins er fólk beðið að halda sig með sínum nánustu og vinna heima ef mögulegt er.“
Viðvörunarkerfið var síðast uppfært sjöunda desember.
UMMÆLI