Umhverfismál, loftslagsbreytingar og annað sjitt

Edward H. Huijbens ásamt Sóley Björk skrifar:

Það er ekki alltaf einfalt að tengja umhverfismál og loftslagsbreytingar við okkar daglega líf. Hver er til dæmis tengingin milli þess að skola skyrdolluna og að bjarga heiminum? Hver eru markmið Íslands í losun koltvísýrings? Hvert er vistspor 6 ára skólabarns?

Það er þó þannig að tengingarnar eru alltaf verða augljósari. Fellibylurinn Harvey sýnir okkur hvað einnar gráðu aukning í sjávarhita getur aukið kraft fellibylja. Nýlega var þýsk heimildarmynd um hræðilegar afleiðingar plastnotkunar sýnd á RÚV þar sem sjá mátti hvernig dýr flækja sig í plastrusli og drepast ef þeim er ekki hjálpað og örplast mælist um allan sjó og á greiða leið inn í fæðukeðjuna. Nýjust fréttir eru svo að eitt skemmtiferðaskip mengar á við milljón bíla, bæði svifryki, kolefni og nituroxíðum. Já þetta er allt að verða skýrara. Og ógnvænlegra. En erum við að bregðast við?

Einn vandinn er sá að flest fyrirtæki hafa það eina markmið að skila eigendum sínum sem mestum hagnaði. Þess vegna eru þau ólíkleg til að taka skref til verndar umhverfinu nema að fá kostnaðinn til baka í aukinni viðskiptavild eða einhverskonar bótum.

Sóley Björk ásamt Edward H. Huijben skrifar:

Það er þess vegna sem pólitíkin þarf að koma til skjalanna. Við sem störfum í pólitíkinni erum þar til að standa vörð um hagsmuni almennings og taka þar frumkvæði. Pólitískir fulltrúar mega ekki draga lappirnar og sjá hvernig hlutirnir þróast heldur er það þeirra að taka forystu um nauðsynlegar breytingar í samfélaginu til verndar umhverfi og náttúru.

Það er því sorglegt að lesa í fundargerð stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands frá því fyrr í mánuðinum að áskorun sem gengur út á að banna brennslu svartolíu í Norðurhöfum og skilgreina slíkt bannsvæði hér við land var aðeins lögð fram til kynningar en ekki samþykkt að taka undir áskorunina. Það virðist því ekki vera pólitískur vilji stjórnvalda við Eyjafjörðinn að standa með umhverfi norðurslóða og loftgæðum í firðinum og þrýsta á um hraðari þróun til hins betra í mengunarvörnum skipa, ólíkt kollegum sunnan heiða. Stjórn Faxaflóahafna og fulltrúar nokkurra sveitarfélaga hafa nefninlega samþykkt áskorunina og þegar kannað fýsileika þess að rafvæða hafnir á höfuðborgarsvæðinu. Notkun svartolíu í Norðurhöfum á hvaða skip sem er, er alger tímaskekkja og á ekki að líðast og hefur verið bönnuð á hafsvæðum austan og vestan við okkur. Það má spyrja hver ímynd íslensks sjávarfangs verður ef út spyrst að svartolía er notuð við veiðar á fisk á norðurslóðum. Að sama skapi hlýtur það að vera kappsmál íbúa á Oddeyri að fá ekki yfir sig svifryk milljón bíla með sunnangolu á góðum sumardegi.

Við skorum hér með á stjórnendur Hafnarsamlags Norðurland að bretta upp ermar, skrifa undir áskorunina og beita sér á allan mögulegan hátt til að sporna við mengun frá skipum sem leggjast við bryggju á Akureyri.

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG og Edward H. Huijbens varabæjarfulltrúi VG

Pistillinn er aðsend grein.

 

UMMÆLI