Umsóknum um jólaaðstoð fjölgar um 30 prósent

Umsóknum um jólaaðstoð fjölgar um 30 prósent

Frá árinu 2013 hafa Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Rauði krossinn við Eyjafjörð og Hjálparstarf kirkjunnar starfað saman um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu. Samstarfið hefur gengið vel og gert það að verkum að hægt hefur verið að styðja einstaklinga og fjölskyldur á svæðinu með veglegri hætti en áður. Nú hefur verið ákveðið að stíga skrefi lengra og hafa samstarfið á ársgrundvelli. Heitið breytist því úr Jólaaðstoð í Velferðarsjóður. Með þessari breytingu er vonast til að einfaldara verði að leita sér aðstoðar allan ársins hring og að betur sé hægt að halda utan um upplýsingar um þörfina í samfélaginu. Starfssvæði sjóðsins er Eyjafjörður, frá Siglufirði til Grenivíkur.

Eins og við mátti búast voru umsóknir um jólaaðstoð árið 2020 nokkuð fleiri en árin á undan. Umsóknir bárust frá um 400 heimilum á svæðinu, samanborið við 309 árið 2019. Þó hefur vel gengið að fjármagna aðstoðina, enda styðja fyrirtæki og samtök á svæðinu myndarlega við sjóðinn.

„Þetta er 30 prósent aukning á milli ára og við gerum ráð fyrir að finna enn meiri aukningu jafnt og þétt á næsta ári,“ segir Sigríður M. Jóhannsdóttir, formaður sjóðsins. „Það hefur þó gengið vel að fjármagna og margir velunnarar okkar hafa lagt fjáröfluninni lið, sem gerir það að verkum að þetta gengur þrátt fyrir aukna eftirspurn.“

Þeim sem hafa áhuga á að styrkja Velferðarsjóð er bent á reikninginn 0302-13-175063, kt. 460577-0209.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó