Ungur maður dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun á Akureyri

Héraðsdómur Norðurlands eystra. Mynd: akureyri.net

Ungur maður var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun í Héraðsdómi Norðurlands eystra 11. desember síðastliðinn. Nauðgunin átti sér stað í eftirpartíi snemma morguns í október í fyrra á Akureyri. Héraðsdómurinn klofnaði í afstöðu sinni í málinu þegar einn dómari af þremur vildi sýkna manninn en hinir tveir vildu sakfella hann. Maðurinn, sem þarf að sitja tveggja ára fangelsisvist, var einnig gert að greiða konunni eina og hálfa milljón í miskabætur en hún krafðist 1.8 milljóna króna. Þá þarf hann einnig að greiða tæpar 1,8 milljónir í sakarkostnað.

Trúverðugur framburður
Konan hafði verið úti að skemmta sér um kvöldið og endaði heima hjá manninum ásamt fleirum og sofnaði að lokum í sófa í íbúðinni. Þá vaknaði hún við að maðurinn var farinn að eiga samræði við hana.
Dómurinn gengur út frá því að maðurinn hafi haft mök við konuna án þess að hún hafi gefið samþykki fyrir samræðinu en maðurinn hélt því fram að konan hefði verið vakandi allan tímann og tekið vel í atlot hans. Meirihluti dómsins var þó sammála um að geðshræring og uppnám konunnar í kjölfarið renni stoðum undir stöðugan og trúverðugan framburð hennar.

Í niðurstöðu dómsins segir:
,,Í máli þessu er ákærða gefin að sök nauðgun, með því að hafa að morgni sunnudagsins 23. október 2016 haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþolann A, sem var gestur á heimili hans, gegn hennar vilja, með því að stinga fingrum í leggöng hennar og hafa við hana samræði, þar sem hún lá sofandi í sófa og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.“

Einn dómaranna vildi sýkna
Einn dómaranna skilaði sératkvæði og vildi sýkna manninn. Rökstuðningur hans var sá að maðurinn hafi ekki haft samræði við konuna strax, heldur fyrst farið með hönd inn á fötin hennar og við það hafi hún vaknað en brugðið og í kjölfarið stirðnaði hún upp og kom ekki upp hljóði. Hún hafi því verið með fullri rænu þegar maðurinn hafði samræði við hana og það hafi hann vitað. Þess vegna sé varhugavert að slá því föstu að hann hafi vitað ,,að samræðið væri gegn vilja hennar, þótt hún tæki ekki virkan þátt í því“ eins og segir í sératkvæðinu.

ArticChallenge

UMMÆLI

Ticket to Paradise