Uppbygging miðbæjar Akureyrar

Uppbygging miðbæjar Akureyrar

Akureyrarbær kynnti í gær tillögur að breytingum á miðbæjarskipulagi. Tillögurnar byggja á niðurstöðum þverpólitísks stýrihóps og er stefnt að því að hefja uppbyggingu sem allra fyrst.

Skipulagsráð samþykkti í fyrra að gera breytingar á deiliskipulaginu sem tók gildi 2014. Svæðið sem breytingarnar ná til afmarkast við Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu, Hofsbót og Strandgötu.

Helstu leiðarljós núverandi skipulags eru óbreytt. Markmiðið er sem fyrr að nýta betur opið landrými á milli Skipagötu og Glerárgötu með nýjum húsaröðum, stækka þannig miðbæinn og bæta tengingu við höfnina og Hof með rúmgóðum austur-vestur gönguásum.

Samkvæmt þeim breytingartillögum sem nú liggja fyrir verður Glerárgata áfram 2+2 vegur í núverandi legu, en gert er ráð fyrir þrengingu á einum stað með veglegri gönguþverun. Þar sem ekki er gert ráð fyrir færslu Glerárgötu minnka lóðir og byggingarreitir við Skipagötu og Hofsbót.

Lagt er til að hluti Skipagötu verði einstefna til suðurs og að sama gildi um Hofsbót frá Skipagötu að Strandgötu. Þá er gert ráð fyrir nýjum og afmörkuðum hjólastíg eftir Skipagötu sem og reiðhjólastæðum og -skýlum fyrir almenning í miðbænum, auk þess sem kvöð er sett um reiðhjólageymslur í öllum nýjum byggingum innan svæðisins. Loks er gerð krafa um að á jarðhæð nýrra bygginga sem snúa að Skipagötu, Hofsbót og austur-vestur gönguásum verði lifandi starfsemi, svo sem verslanir, veitingastaðir, þjónusta og menningarstarfsemi sem stuðli að fjölbreyttu miðbæjarlífi.

Á heimasíðu Akureyrarbæjar má nálgast frekari upplýsingar um miðbæjarskipulagið, helstu skipulagsgögn, greinargerð og myndræna kynningu á breytingunum.

„Hlutverk stýrihópsins var að leita leiða til þess að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi þannig að meirihluti bæjarstjórnar gæti samþykkt að vinna samkvæmt því. Það er sannarlega fagnaðarefni að það hafi tekist og að grunnhugmyndafræði skipulagsins byggi enn á vinnu sem kaupmenn í bænum hófu undir merkjum „Akureyri í öndvegi“ og vinningstillögu úr hugmyndasamkeppni sem haldin var árið 2005. Vonandi verður þessi vinna til þess að löngu tímabær uppbygging geti hafist hið fyrsta,“ segir Hilda Jana
Gísladóttir, formaður stýrihóps um uppbyggingu miðbæjarins.

„Vinna stýrihópsins gekk vel og ég fagna því að nú sé komin fram tillaga að skipulagi miðbæjarins sem hægt verður að vinna eftir strax á næsta ári. Ekki var samstaða í stýrihópnum um alla þætti skipulagsins en niðurstaðan er þó þannig að allir geti sætt sig við hana og því er hægt að vinna málið áfram af fullum krafti,” segir Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar.

UMMÆLI