Úttekt á gæðum lögreglunáms við Háskólann á AkureyriMynd: Háskólinn á Akureyri/unak.is

Úttekt á gæðum lögreglunáms við Háskólann á Akureyri

Gæðaráð íslenskra háskóla hefur nú birt niðurstöður úttektar sinnar á lögreglunámi við Háskólann á Akureyri. Lögreglunámi var komið á fót við skólann haustið 2016 og er úttektin unnin samkvæmt samningi milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og HA um námið.

Meðal helstu niðurstaðna úttektarinnar um styrkleika námsins er aðlögun þess að háskólakerfinu og viðleitni innan þess til að nútímavæða starfsemi lögreglunnar, fjarkennsluform veiti fjölbreyttari nemendahóp aðgang að náminu og staða upplýsingatækni í náminu sé sterk. Þá hefur nýstofnað ráð um lögreglunám nú tækifæri til að fylgja eftir og endurskoða námið og tryggja að það samræmist kröfum sem gerðar eru til þess af hagaðilum.

Í úttekt gæðaráðsins eru gerðar athugasemdir við þætti sem nauðsynlegt er vinna að úrbótum á, þar á meðal að bæta þurfi gagnsæi þeirra fjárveitinga sem veittar séu til námsins, skýra þurfi verkaskiptingu, gera samning við mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar og koma á skýrari ferlum um samskipti ráðuneyta og stofnana sem að náminu koma. Þá skuli stuðla að bættu samræmi í náminu hvað varðar markmið þess, vinnuframlag og samspil bóklegra faga og faglegrar þjálfunar. Hvatt er til þess að skýrar sé kveðið á um hæfnikröfur lögreglumanna og að háskólinn móti sér stefnu um raunfærnimat.

Háskólinn á Akureyri mun í framhaldinu skila umbótaáætlun til gæðaráðs íslenskra háskóla sem fylgt verður eftir af hálfu ráðsins, dómsmálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

„Í skýrslunni koma fram margar góðar ábendingar um það sem hægt er að bæta í skipulagi námsins og innihaldi þess en þó er ljóst að það mun þurfa aðkomu allra hagsmunaaðila svo unnt verði að ná í gegn þeim meginbreytingum sem nauðsynlegar eru svo sem þróun og skilgreining á hlutverki lögregluþjónsins,” segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri á vefsíðu skólans.

„Á heildina litið er mikilvægi þess að færa lögreglunám á háskólastig orðið vel ljóst en námið mun halda áfram að þróast á næstu árum,” segir Eyjólfur jafnframt

UMMÆLI