Prenthaus

Úttekt á matseðlum í skólum Akureyrarbæjar: „Heilt yfir eru núverandi matseðlar svolítið barn síns tíma“

Úttekt á matseðlum í skólum Akureyrarbæjar: „Heilt yfir eru núverandi matseðlar svolítið barn síns tíma“

Matseðill í mötuneytum leik- og grunnskóla Akureyrar hefur verið talsvert í umræðunni undanfarna mánuði. Umdeilt hefur verið hvort að farið sé eftir handbók Landlæknisembættisins við val á matvælum og matseðlum mötuneytanna, þá sérstaklega hvort að matseðill vikunnar sé nægilega næringarríkur. Eyrún Gísladóttir, Akureyringur og hjúkrunafræðingur, hefur barist fyrir bættri næringu í skólamáltíðum hjá Akureyrarbæ og að úttekt um næringagildi skólamáltíða sé gerð. Slík úttekt hefur nú verið gerð og liggja niðurstöðurnar fyrir.

Sjá einnig: Akureyrarbær sem heilsueflandi samfélag?

Í byrjun maí 2021 barst Sýni ehf. beiðni frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar um að reikna út næringagildi skólamáltíða hjá Akureyrarbæ. Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir fræðsluráði 23. ágúst síðastliðinn og hefur skýrslunni nú verið bætt við sem fylgiskali við fundargerð Fræðsluráðs bæjarins.

Sýn ehf. skoðaði orku, fitu, mettaða fitu, prótein, kolvetni, sykurtegundir, trefjar og salt í hádegismáltíðum skóla- og leikskóla Akureyrarbæjar fyrir 12 virka daga. Matreiðslumenn og matráðar grunn – og leikskóla Akureyrarbæjar sendu inn uppskriftir ásamt upplýsingum um skammtastærðir og upplýsingablöð frá framleiðendum hráefna. Niðurstöðurnar voru síðan bornar saman við ráðleggingar Landlæknisembættisins og stutt mat gefið á matseðlum og innihaldsefnum.

Niðurstöðurnar góðar en leggja þarf meiri áherslu á næringu úr jurtaríki

Niðurstöður úttektarinnar eru almennt nokkuð góðar en í skýrslunni er bent á nokkur atriði sem betur má fara. Þá er nefnt að mikilvægt sé að miðað við að í boði sé regulega feitur fiskur, eða a.m.k. tvisvar sinnum í mánuði. Engin máltíðanna sem reiknaðar voru út innihéldu feitan sisk. Einnig er mælt með að nota meiri mjúkar olíur í stað smjörlíkis eða smjörs. Auka þarf trefjarnar í máltíðunum en draga úr mettaðri fitu. Mettuð fita er helst að finna í kjöti og feitum mjólkurvörum. Því benda niðurstöðurnar til þess að minnka ætti hlutfall kjöts í máltíðum eins og hægt er. Mælt er með því að einu sinni í viku sé hafður matarmikill grænmetisréttur með rótargrænmeti og baunum eða linsum. Þannig næðist betri hlutföll fyrir mettaða fitu og trefjar. Jafnframt mætti nota egg meira í matargerð. Á þeim árstíma sem lítið er af nýjum kartöflum er mælt með því að nota t.d. íslenskt bankabygg eða perlubygg sem gefur góða fitu, trefjar, steinefni og vítamín.

Í niðurstöðunum segir að lokum: „Þegar horft er á sameiginlega matseðla svona heilt yfir þá telur undirrituð þá vera svolítið „barn síns tíma“. Uppfæra þyrfti eitt og annað í samræmi við framboð og eftirspurn dagsins í dag. Leggja meiri áherslu á minna kjöt/meira grænmeti. Meira gróft og meira af linsum og baunum. Leggja áherslu á blandaða rétti sem geta oft á tíðum verið hollari, bæði fyrir líkamann og umhverfið.“

Lesa má skýrslunua um næringargildi skólamáltíðar hjá Akureyrarbæ með því að smella hér.

UMMÆLI