Vaknið til vitundar

Gréta Baldursdóttir skrifar

Það þarf að styrkja betur við KFA (Kraftlyftingafélag Akureyrar).
Þetta segi ég sem foreldri og vil að dóttir mín geti æft kraftlyftingar í öruggu húsnæði Kraftlyftingafélagsins. Hún og aðrir iðkendur og þjálfarar eiga ekki að þurfa endalaust að eiga á hættu að þeim sé hent út úr núverandi húsnæði sem ÍBA úthlutaði KFA á sínum tíma. KFA þarf framtíðarhúsnæði og þau eiga að geta haft allan þann besta aðbúnað sem völ er á.
Við Akureyringar erum stolt af, að innan veggja KFA er einn besti kraftlyftingaþjálfari á Íslandi, Grétar Skúli Gunnarsson. Í KFA er unnið vel og óeigingjarnt starf og jafnvel oft í sjálfboðavinnu, en þannig getur það ekki gengið lengur.
Það hlýtur að vera afar lýjandi og niðurdrepandi að vera þjálfari en finna ekki fyrir meðbyr.
Við Akureyringar viljum ekki missa frá okkur formann og aðalþjálfara Kraftlyftingafélagsins sem hefur til þessa lagt ómælda vinnu á sig að byggja upp KFA.
Ég vil vekja athygli á því að innan veggja KFA eigum við Íslendingar efnilegustu fulltrúa landsins í kraftlyftingum sem leggja verulega vinnu á sig. Æfa linnulaust, margar klukkustundir daglega undir leiðsögns þjálfara síns, Grétars Skúla. Þau verða fulltrúar Íslendinga á EM og HM. Hvað segir þetta okkur?
Ég vil vekja athygli á því að Íþróttamaður Akureyrar annað árið í röð æfir í KFA. Hvað segir það okkur?

Það þarf að græja nýtt húsnæði til framtíðar fyrir KFA og þá liggur ljóst fyrir að það þarf að leggja pening í það verkefni! Bið ég því forsvarsmenn Akureyrarbæjar að sýna skilning og deila af sanngirni af stóru 2000 milljóna krónu kökunni sem þeir hafa til ráðstöfunar til íþróttamála á Akureyri.

Með kveðju
Gréta Baldursdóttir

Þessi pistill er aðsend grein.

Sjá einnig

Að uppskera ekki árangur erfiðis

UMMÆLI