Vélmenni á göngum Háskólans á Akureyri

Mynd af Unak.is

Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri festi í haust kaup á vélmenni sem nefnist Telepresence Robot á ensku en Fjærvera á íslensku. Vélmennið hefur fengið nafnið Krista.

Krista er þróunarverkefni og munu fjarnemar eða kennarar geta komið í fjærveruna til að sitja fundi og/eða til að taka þátt í kennslustundum.

Með fjærverunni gerir Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður kennslumiðstöðvar, sér vonir um að fjarnemar fái meira rými og betri tengsl og verði sýnilegri öðrum nemendum og kennurum við HA.

„Einnig sjáum við fyrir okkur að fjarnemar eigi auðveldara með að eiga í betri samskiptum við staðarnema, þeir geta tekið virkari þátt í umræðum, farið með þeim inn í matsal eða einfaldlega gripið orðið með einfaldari hætti,“ segir Auðbjörg í samtali við vef Háskólans.

Krista er fyrsta vélmennið af sinni gerð sem keypt hefur verið fyrir skóla á Íslandi en gera má ráð fyrir að slík tæki muni nýtast til margskonar samskipta þar sem nærvera skiptir höfuðmáli og þar sem hjálplegt er að geta fært sig úr stað.

Krista er búin tveimur myndavélum og fjórum hljóðnemum og getur ekið á allt að þriggja km hraða. Stýrikerfið er ennfremur einfalt í notkun og notendavænt og notandi getur skráð sig inn í Kristu í gegnum tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma.

UMMÆLI