Verkefnið FF Múrbrjótur – Fótbolti án fordóma hlýtur styrk frá KSÍ og Lýðheilsusjóði

Nokkrir þátttakenda í FF Múrbrjótar – fótbolti án fordóma. Mynd: Akureyri.is

Búsetusvið Akureyrar stendur að verkefninu FF Múrbrjótur – Fótbolti án fordóma. Verkefnið byggir á sjálfboðavinnu starfsmanna sviðsins og hefur staðið frá árinu 2015. Verkefnið gengur út á að bjóða einstaklingum sem takast á við geðræn og félagsleg vandamál upp á fótboltaæfingar eða aðra hreyfingu einu sinni í viku yfir sumartímann. Markmiðið er að auka þátttöku í hollri hreyfingu og efla samfélags- og félagsvitund.

Í vikunni hlaut verkefnið tvo styrki. Annars vegar 250 þúsund krónur frá Lýðheilsusjóði og hins vegar styrk frá Knattspyrnusambandi Íslands upp á 6000 evrur eða um 750 þúsund krónur.

Aðsókn hefur verið góð frá árinu 2015 og verkefnið hefur notið liðsinnis frá knattspyrnufélögum bæjarins, KA og Þór.

Vegna mikillar og stöðugrar virkni þeirra sem sækja fótboltaæfingarnar þá hafa þátttakendur ákveðið að stíga skrefið til fulls og stofna formlega Fótboltafélagið Múrbrjóta. Tilgangur félagsins er sá sami og verkefnisins að auka virkni og hreyfingu félagsmanna. Allir velkomnir að taka þátt, aðstandendur, starfsfólk félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu einnig. Markhópurinn er engu að síður fólk sem hefur glímt við eða glímir við geðraskanir eða félagsleg vandamál.

Styrkirnir tveir fela í sér ánægjulega viðurkenningu á þessu starfi og með þeim verður rekstargrundvöllur nýja félagsins afar góður næstu misserin. Styrkur KSÍ er þannig tilkominn að sambandið fekk á dögunum viðurkenningu og styrk frá Evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, fyrir háttvísi íslenskra landsliða og félagsliða í keppnum á vegum sambandsins 2016-2017. Fjármunirnir frá UEFA voru nýttir til að styrkja háttvísisverkefni („Fair play“) eins og FF-múrbrjótar – fótbolti án fordóma.

UMMÆLI