Í síðustu viku hlutu Berglind Hólm Ragnarsdóttir og Andrea Hjálmsdóttir, lektorar við Félagsvísindadeild HA og Bergljót Þrastardóttir, lektor við Kennaradeild HA, ásamt Valgerði S. Bjarnadóttur, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, styrk frá Jafnréttissjóði fyrir árið 2025. Styrkinn fengu þær fyrir verkefnið „Verkakonur, vellíðan og velferðarkerfið“. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef HA.
„Að fá slíkan styrk er gífurlega mikils virði,“ segir Berglind á unak.is. „Hann mun gera okkur kleift að klára þetta rannsóknarverkefni sem annars hefði ekki verið mögulegt. Þá sé ég þetta líka sem viðurkenningu á mikilvægi rannsóknarinnar og þeirri þekkingu sem við erum að skapa með henni.“
Rannsóknin er komin vel á veg að sögn Berglindar. „Við höfum lokið við fyrri hluta verkefnisins þar sem við lögðum spurningakönnun fyrir um 1250 konur á Íslandi. Þær svöruðu spurningum til dæmis um félagsleg tengsl, fjárhagsstöðu og samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs.“ Niðurstöður úr þeim hluta rannsóknar hafa verið birtar í ritrýndum greinum og einnig viðamikilli skýrslu sem kom út árið 2024. Í seinni hluta rannsóknar verða tekin 30 viðtöl við láglaunakonur af íslenskum og erlendum uppruna þar sem leitast er við að fá innsýn í félagslegan veruleika þeirra, fjárhagsstöðu og upplifun þeirra af velferðarkerfinu.
Hér má lesa meira um rannsóknina, birtingar, rannsóknaraðila og fréttir.
UMMÆLI