Við ein vitum

Við ein vitum

Oft hef ég klórað mér í hausnum yfir ýmsu sem kemur frá bæjarstjórninni okkar hér á Akureyri. En eftir að hafa lesið fundargerð frá 19. þessa mánaðar um fiskeldi við Eyjafjörð var mér algjörlega fyrirmunað að skilja hvað blessað fólkið er að fara.

Eftir einhverjar umræður á fundinum voru samþykktar tvær ályktanir um málefnið sem ganga greinilega hver gegn annarri og úr verður óskiljanleg þvæla.

Fyrri ályktunin, sem samþykkt var með 7 atkvæðum en 4 sátu hjá, kveður á um að Eyjafjörður verði friðaður án frekari vafninga og þar með útilokaður frá sjókvíaeldi um aldur og eilífð. Ekki var minnst í samþykktinni á samráð um þetta málefni við önnur sveitarfélög við Eyjaförð enda þótt þau hafi sýnt þessari atvinnuuppbyggingu nyrst í firðinum mikinn áhuga. Ekki var heldur talin ástæða til að ræða málið við bæjarbúa rétt eins og þeim komi málið heldur ekkert við.

Það drýldna viðhorf sem endurspeglast í þessari samþykkt bæjarstjórnar er í góðu samræmi við kenninguna um að „við ein vitum“, við höfum höndlað sannleikann og því óþarfi að tala við nágranna okkar, hvað þá samborgara. Við erum með þetta og hananú. Síðari ályktunin, sem var samþykkt með 4 atkvæðum en 7 sátu hjá (!), er á þá leið að skoða allar hliðar málsins áður en ákvörðun um fiskeldi í Eyjafirði verði samþykkt sem auðvitað má telja sjálfsagðan hlut. Ennfremur er tekið fram að lykilatriði sé að samráð verði haft við sveitarfélög og íbúa í jafn umfangsmiklu máli og hér er til umræðu.

Síðan er hvatt til þess að unnið verði með stjórnvöldum að gerð strandsvæðaskipulags áður en lengra verður haldið og með aðkomu allra sveitarfélaga á svæðinu. Þetta er auðvitað mun skynsamsari nálgun en fyrri samþykktin þar sem kallað er eftir einhliða banni án þess að gera fyrst vandaða úttekt með sérfræðingum og nágrönnum okkar þar sem jákvæðar og neikvæðar hliðar fiskeldis verði skilgreindar, skoðaðar og metnar.

En þá stendur eftir spurningin: Hvað var raunverulega samþykkt í bæjarstjórn þennan drottins dag? Var það ótvírætt bann við fiskeldi í Eyjafirði eða hitt að skoða málið með nágrönnum okkar sem sýnt hafa fiskeldi áhuga!

Alltént þarf meiri spámann en mig til að skilja þetta moð úr bæjarstjórn sem hér er vakin athygli á þar sem „eitt rekur sig á annars horn eins og graðpening hendir vorn,“ líkt og skáldið á Bægisá sagði. Þar með sýnist mér að bæjarstjórn hafi komið málum svo haganlega fyrir að allt gufar upp og ekkert gerist eins og hún er raunar þekkt fyrir enda þjökuð af alvarlegu stefnuleysi í mikilvægum málefnum að viðbættu áberandi forystuleysi. Þegar allt leggst þannig á eitt verður útkoman sorglega snautleg.

Ragnar Sverrisson kaupmaður á Akureyri

UMMÆLI