„Við horfum bjartsýn fram á veginn og vonum að starfsemi okkar á Akureyri eigi eftir að blómstra enn frekar“

„Við horfum bjartsýn fram á veginn og vonum að starfsemi okkar á Akureyri eigi eftir að blómstra enn frekar“

Í síðustu viku ferðuðust þær Guðrún Birna le Sage og Gunnhildur Ólafsdóttir, fagstýra, frá Píeta samtökunum til Norðurlands og heimsóttu Akureyri og Sauðárkrók. Guðrún Birna, sem er verkefnastýra markaðs- og kynningarmála hjá Píeta, segir að ferðin hafi verið virkilega vel heppnuð.

„Við byrjuðum á fræðsluerindi á Sauðárkróki þar sem velferðarsvið tók á móti okkur og allir helstu fag- og viðbragðsaðilar mættu á svæðið. Það var virkilega verðmætt að eiga samtal þvert á stéttir að erindi loknu, til að ræða hvernig koma má betur til móts við okkar viðkvæma hóp. Það sama má segja um morgunfundinn á Akureyri þar sem fullt var út úr dyrum og vel tekið á móti okkur. Eftir það hittum við öflugt teymi Hjálp 48 verkefnisins til að efla samvinnu og þétta raðirnar. Við hlökkum til að fylgjast með þessu flotta tilraunarverkefni sem gengur út á að veita aðstandendum fyrstu hjálp eftir missi í sjálfsvígi, fylgja þeim svo eftir og beina áfram í úrræði eins og t.d. til okkar hjá Píeta. Það skiptir okkur miklu máli að það sé vel tekið utan um þennan hóp,“ segir Guðrún Birna í samtali við Kaffið.

Góða fólkið á Akureyri

Guðrún segir að það hafi einnig verið gott fyrir þær að kíkja í heimsókn í Píeta skjólið í gula húsinu við Aðalstræti 14 á Akureyri og hitta fólkið sem starfar fyrir Píeta á Akureyri.

„Það sem stóð uppúr var allt þetta góða fólk á Akureyri sem brennur fyrir því að hjálpa öðru fólki, við fundum fyrir miklum velvilja til Píeta og áhuga á þeirri þjónustu sem við veitum og allir voru sammála um að þörfin fyrir svona sértaækt úrræði er svo sannarlega til staðar.“

Guðrún segist einnig hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá almenningi á Akureyri og hápunkturinn hafi verið þegar þær tóku við veglegum styrk frá eigendum 42ggja fasteigna við Melateig á Akureyri.

„Við höfum aldrei áður tekið við slíkum styrk frá eigendafélagi en íbúar í þessum eignum telja á annað hundrað manns. Virkilega falleg samstaða þar á ferð og svona styrkir hjálpa okkur að halda úti þeirri öflugj og gjaldfrjálsu þjónustu sem við veitum. Styrkurinn fer í það að efla þjónustuna á Akureyri.“

Helgi Jónsson og Jónína Sturludóttir afhentu styrkinn í Píeta skjólinu á Akureyri. Guðrún Birna er með þeim á myndinni.

Mikilvægt að hafa öfluga þjónustu og gott samstarf milli viðbragðsaðila og fagstétta

Píeta opnaði útibú á Akureyri sumarið 2021. Guðrún segir að starfsemin gangi vel og mikilvægt sé að hafa öfluga þjónustu á Akureyri sem þjónustar stórt svæði.

„Sálfræðingur okkar býður upp á gjaldfrjáls viðtöl fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir eða sjálfsskaða og aðstandendur þeirra sem og aðstandendur sem hafa misst í sjálfsvígi. Í haust fórum við af stað með nýjan stuðningshóp fyrir syrgjendur í kapellu Akureyrarkrikju sem fer virkilega vel af stað undir leiðsögn Hildar Eirar Bolladóttur. Síðan þjónustar hjálparsími Píeta allt landið og hann er opinn allan sólahringinn, alla daga ársins fyrir þá sem þurfa á hjálp eða leiðsögn að halda. Síminn er 552-2218.“

„Við horfum bjartsýn fram á veginn og vonum að starfsemi okkar á Akureyri eigi eftir að blómstra enn frekar. Akureyri þjónustar stórt svæði og því mikilvægt að hafa öfluga þjónustu og gott samstarf milli viðbragðsaðila og fagstétta,“ segir Guðrún að lokum.

COMMENTS