Prenthaus

„Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu“

„Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Landsbyggðin hefur áþreifanlega fundið fyrir lítilli nýliðun sérfræðilækna undanfarin ár. Sama saga á við hjá fjölmörgum öðrum þjóðum.

„Það er áskorun að finna nýjar leiðir, nýta þann mannauð sem við búum að í dag, hlúa að honum eftir mikið álag undanfarin ár, en einnig að fjölga heilbrigðisstarfsfólki,“ sagði Ingibjörg í ræðu sinni.

„Margir neyðast til að gera sér ferð til höfuðborgarinnar til að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu, jafnvel einungis til þess að fara til augnlæknis með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn,“ sagði hún.

„Sérfræðilæknar hafa sinnt þjónustu víðs vegar um landið í samstarfi við heilbrigðisstofnanir um land allt. Það er mikilvægt að það haldi áfram, en í því ljósi er einnig mikilvægt að skapa umgjörð, ná samningum við sérfræðilækna og nýta tækni í fjarheilbrigðisþjónustu þó svo að hún muni aldrei koma í staðinn fyrir persónulega þjónustu.“

„Hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur sett á laggirnar starfshóp sem vinnur að aðgerðum til að bæta mönnun sérhæfðs starfsfólks heilbrigðisumdæma Vestfjarða og Austurlands. Þetta er gert ásamt því að farið hefur verið í aðgerðir innan heilbrigðisráðuneytisins til að bæta nýliðun og mönnun sérfræðilækna utan höfuðborgarsvæðisins. Starfshópi verkefnisins Öflug sjúkrahúsþjónusta í dreifbýli er ætlað að skoða viðeigandi lausnir á hverju svæði fyrir sig og hvernig best er að bregðast við mönnunarvanda á landsbyggðinni með skilvirkum máta, með samvinnu sjúkrahúsa að leiðarljósi. Starfshópurinn mun einnig taka þætti á borð við vaktþjónustu, þjálfunarmöguleika, sérnámsmöguleika og fleira til athugunar í sinni vinnu. Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Ræð Ingibjargar í heild sinni á Alþingi má nálgast á vef Framsóknar með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó