beint flug til Færeyja

Vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi

Vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi

Samvinna eftir skilnað (SES) er ráðgjafarúrræði sem miðar að því að koma í veg fyrir eða draga úr ágreiningi foreldra sem eru að skilja eða hafa gengið í gegnum skilnað og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Fjallað er um úrræðið á vef Akureyrarbæjar.

Á vefsíðunni samvinnaeftirskilnad.is má nálgast fræðslu og örnámskeið. Þau sem vilja meiri stuðning geta sótt hópnámskeið, þar sem ítarlega er fjallað um áhrif skilnaðar á fjölskyldu, og/eða sérhæfða ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum Akureyrarbæjar.

Halldóra Kristín Hauksdóttir, lögmaður velferðarsviðs, og Katrín Reimarsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði, eru SES ráðgjafar Akureyrarbæjar. Samkvæmt þeim er það ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur hvernig að honum er staðið gagnvart börnunum.

„Við fáum til okkar fólk sem er að íhuga að skilja, fólk sem gekk í gegnum skilnað fyrir einhverjum árum, og allt þar á milli. Fólk getur komið eitt eða saman. Allt sem við gerum er unnið út frá því sem er börnunum fyrir bestu, og við vinnum í að lágmarka átök og óþægileg samskipti. Því fylgir ábyrgð að fæða barn í heiminn, og þessi ábyrgð stendur þótt fólk skilji. Fólk þarf ekki að vera vinir, en samskiptin um það sem snýr að barninu þurfa að vera heilbrigð,“ segja þær í samtali við heimasíðu Akureyrarbæjar.

Akureyrarbær innleiddi SES í febrúar 2022. Verkefnið var upphaflega þróað í Danmörku, en þar hafa rannsóknir sýnt marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í SES og þeirra sem gera það ekki. Akureyrarbær býður foreldrum barna upp á SES námskeið og ráðgjöf, án endurgjalds. Sótt er um í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar. Næsta námskeið er fyrirhugað í febrúar 2025.

VG

UMMÆLI

Sambíó