Á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra er óskað eftir vitnum að hundaárás sem átti sér stað á Akureyri síðastliðinn fimmtudag, 23. janúar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu réðst hundur á konu sem var gangandi eftir Wilhelmínugötu, á móts við Jóninnuhaga. Konan hlaut áverka í árásinni og var flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.
Málið er nú í rannsókn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Jafnframt hefur verið haft samband við Matvælastofnun (MAST) og Akureyrarbæ, sem fara með málefni hundsins.
Lögreglan telur mögulegt að vitni hafi séð árásina og hvetur þau til að gefa sig fram. Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-2800 á opnunartíma.
UMMÆLI