Vonbrigði.

Vonbrigði.

Vegna mikilla vonbrigða með framkvæmdaleysi bæjarins og Vegagerðar við að gera vegarkaflann milli Tryggvabrautar og Undirhlíðar öruggan vegfarendum komum við nokkrir íbúar Glerárhverfis saman til að skrifa þessa grein. Það að við skulum þurfa að vekja enn og aftur athygli á þessum hættulega vegarkafla eru okkur einnig mikil vonbrigði. Svo virðist sem áhugaleysið sé algjört frá Vegagerð og bænum og eru það enn og aftur vonbrigði. Að finnast sem ítrekað sé ekki hlustað á íbúa og sjálfsagðrar kröfu þeirra til margra ára um að bæta umferðina á þessu vegarkafla eru okkur einnig mikil vonbrigði. Bæjarstjórn samþykkti ákveðnar framkvæmdir í vor, og í apríl var sagt fyrstu stig þeirra framkvæmda hæfust mjög fljótlega. Þann 17.júlí var lögð inn fyrirspurn hvenær framkvæmdir ættu að hefjast, því brýnt væri að byrja áður en skólar myndu hefjast. Engin svör hafa enn borist þar um, enn ein vonbrigðin.

Það eru okkur vonbrigði að frá 2010 hafi engin bæjarstjórn, sem setið hefur, hefur sett í forgang að gera undirgöng undir þennan vegarkafla. Krafa íbúa hefur verið að fá undirgöng eða brú þar sem slysin á gangandi eru allt of mörg. Undirgöng voru sett undir Hörgárbraut ofan við Bónus að eftir að  íbúar höfðu barist fyrir því í einhver ár. Þar voru gönguljós, en slysin gerðust þrátt fyrir það á ljósunum. Eftir að göngin komu á þeim stað hefur ekkert frést af ákeyrslum á gangandi á þeim stað.  

Það eru okkur mikil vonbrigði að ekki hafi verið gerð undirgöng á Hörgárbraut á svæðinu milli Tryggvabrautar og Undirhlíðar. Þau eru samþykkt á deiliskipulagi frá 2010 og það deiluskipulag var á sínum tima staðfest sem gildandi deiliskipulag í Stjórnartíðindum. Á umræddu deiliskipulagi voru samþykkt tvenn undirgöng – önnur undir Borgarbraut, hin á umræddum vegarkafla við Hörgárbraut Þau fyrri voru gerð en ekki þau seinni.

Frá árinu 2010 hefur verið keyrt á allavega 5 manns á þessum vegarkafla  á aldrinum 4. ára til 60. Þrjú þeirra voru  mjög alvarleg. Á sama þessum sama tíma er vert að velta fyrir sér hve margar ákeyrslur hafa orðið  á gangandi vegfarendur á Borgarbraut síðan 2010? Eða á Hörgárbraut ofan við Bónus? Engin?

Árið  2017 var keyrt á konu við Hörgárbraut og hund hennar, sem drapst. Konan slasaðist illa. Eftir það var ráðist í framkvæmdir við að setja upp gönguljós á gangbrautinni, þar sem keyrt var á hana. Allar tengingar voru tilbúnar fyrir ljósin í 6 mánuði, en ekkert bólaði á þeim.  Á meðan beðið var eftir þeim var keyrt á ungan skóladreng, sem þá var nýbyrjaður í 1. bekk. Eftir það slys var byrjað að spyrjast fyrir um hvar ljósin væru. Svörin sem fengust voru að þau væru í stillingu (frétt í sjónvarpinu á RUV árið 2018).

Eftir enn eina ákeyrsluna  á barn í febrúar sl,  urðu íbúar loks langþreyttir á ástandinu og vildu sjá lausnir sem hugsaðar væru til frambúðar. Krafan um að fólk stigi ekki fæti á götuna var háværust og flestir vildu sá áðurnefnd undirgöng eða göngubrú. Ekki varð við þeirri kröfu, þar sem sagt væri að rampur til að komast upp á 5 metra háa brú tæki of mikið pláss og að ekki væri mikið pláss aflögu til að koma honum fyrir. Undirgöng voru ekki talin koma til greina því staðurinn við Glerárbrú væri ekki ákjósanlegur landlega séð við Gleránna. Önnur rök hafa einnig verið nefnd, eins og t.d. að göng séu hvergi gerð lengur  (þykir úrelt lausn kannski ?) og að rannsóknir sýndu að margir væru hræddir við að ganga gegnum undirgöng. Þ.e. að ef þau yrðu of löng  yrði fólk hrætt þar sem það sæi ekki fyrir enda ganganna.

Ef þessar útskýringar eru samkvæmt rannsóknum, þá það. Við viljum hins vegar benda á að erlendis er hefð fyrir því að fólk gangi neðanjarðar til að taka Metro (lestir undirjarðar). Nærtækara væri kannski að taka dæmi af t.d Miklubraut við gatnamótin hjá Lönguhlíð. Þar eru akreinar 4, eins og  á umræddum vegarkafla Hörgárbrautar. Enginn umræða hefur farið fram um að fólk sé hrætt við að fara þar undir í gegnum tíðina. Samt sést þar ekki í enda ganganna.

Í nýrri hverfum borgarinnar og nærsveitum eru undirgöng út um allt svo fólk þurfi aldrei að fara yfir götu.  Aldrei hefur heyrst að fólk sé hrætt við að nota þau. Hvaða ástæður liggja fyrir því að undirgöng voru aldrei gerð undir Hörgrárbraut.  Hvaða forsendur breyttust frá þeim tíma sem þau voru samþykkt? Ef þau voru aldrei raunhæfur kostur, því voru þau þá samþykkt á sínum tíma?

Í apríl sl. samþykkti bæjarstjórn aðrar framkvæmdir en undirgöng við Hörgárbraut til að gera hana öruggari. Sagt var að framkvæmdir fyrsta áfanga ættu að hefjast mjög fljótlega. Þetta var í apríl – nú er ágúst. Martröðin um að keyrt verði á annað skólabarn varð til þess að íbúar fóru að spyrjast fyrir um hvenær framkvæmdir ættu að hefjast og var ein af þeim fyrirspurnin send þ. 17. júlí sl. Þegar þetta er skrifað er kominn 25. ágúst og engin svör hafa enn fengist um þessar blessuðu framkvæmdir. Svo virðist sem bærinn og Vegagerðin tali ekki saman. Það er þeirra beggja að  koma  að þessum framkvæmdum, enda er Hörgárbraut partur af þjóðvegi 1 og í eigu ríkisins og Vegagerðarinnar. Einu svörin sem hafa fengist eru að hraðaskilti, sem eiga að koma upp, eru enn í stillingu (skv. frétt í sjónvarpsfréttum RUV í byrjun ágúst sl.). Hefur einhver heyrt þennan frasa áður?

Íbúar eru orðnir langþreyttir á að efndir á loforðum séu engar. Skólarnir eru byrjaðir og enn gerist ekkert. Svo virðist sem algjört samskiptaleysi sé milli ríksins (Vegagerðarinnar) og Akureyrarbæjar. Það er sorglegt að bærinn skuli ekki hafa framgöngu í þessu máli okkur til haga og vinna kröftuglega að því að virkja  Vegagerðina með sér í að bæta umferðaröryggið á þessum kafla. Það er lygilegt að þurfa að vekja athygli á þessum vegarafla með ósk um úrbætur í fjölda ára!

Einnig er það ekki sannfærandi að nú sé einblínt á að gera bæinn hjólreiða og gönguvænan þegar innviðir bæjarins bjóða ekki upp á það. Sérstaklega ekki á þessum vegarkafla Gerárhverfis, og þá er Glerárbrú meðtalin.  Það er heldur ekki sannfærandi að bærinn leyfi sér að eyða í gæluverkefni eins og Samkomubrúna, rennibrautir í Sundlaug Akureyrar eða það síðasta sem nú á að eyða í – rafrænt kort fyrir íbúa bæjarins – þegar ekkert er hugsað um að eyða í jafn brýnar og aðkallandi framkvæmdir, sem íbúar hafa kallað á í fjöldamörg ár. Að öryggi íbúa bæjarins á umræddu svæði sé endalaust sett á hakann ár eftir ár eru okkur mikil vonbrigði sem þetta skrifum.

Vegna ítrekaðra vonbrigða hvetjum við alla íbúa Akureyrarbæjar, sem hafa áhuga á bættri umferð á þessu svæði, að mæta á samstöðuhitting um bætta umferð. Mæting er við gangbrautarljósin við Stórholt og norðan við Glerárbrú föstudaginn 28. ágúst og mun hann standa yfir frá kl. 16:30 -17:00. 

Munum eftir að hlýða Víði og mætum með grímur fyrir vitum og virðum 2. metra regluna. 

Skipuleggjendur samstöðuhittingsins,

Gunnur Lilja Júlíusdóttir

Járnbrá Ólafsdóttir 

Steinunn Ósk 

Auður Inga Ólafsdóttir

Eidís Anna Björnsdóttir 

Sólveig Gærdbo Smáradóttir

UMMÆLI

Sambíó