Undanfarna mánuði hefur Wise unnið markvisst að því að flétta saman starfsemi Wise og Þekkingar, tveggja rótgróinna upplýsingatæknifyrirtækja með djúpar rætur á Akureyri.
Tilkynnt var um sameiningu fyrirtækjanna fyrir ári. Starfsfólkið starfar nú samhent undir merkjum Wise og flutti nýverið í eitt sögufrægasta hús bæjarins, á horni Hafnarstrætis 91, sem hýsti höfuðstöðvar KEA í 76 ár. Þar starfar öflugur hópur að nýsköpun og þróun lausna fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög víðs vegar um landið.
Þekking hefur í áratugi verið traustur bakhjarl fyrirtækja og stofnana á Norðurlandi. Fyrirtækið hefur skipað sér sess sem lykilaðili í stafrænni þróun á svæðinu, með djúpa þekkingu á hýsingu, rekstri og þjónustu við tölvukerfi. Nú er þessi sterki grunnur hluti af víðtæku lausnaumhverfi Wise, þar sem viðskiptavinir njóta samfellu í þjónustu – allt frá grunninnviðum og hýsingu til sérsniðinna viðskiptalausna og skýjaþjónustu.
„Við höfum skýra framtíðarsýn og metnað til að byggja upp enn öflugri þjónustu og skapa spennandi tækifæri hér á Norðurlandi. Við höfum áratugareynslu í þjónustu við fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hér á svæðinu og höfum nú öll tæki og tól til að taka næstu skref.“ segir Rebekka Kristín Garðarsdóttir, forstöðukona Wise á Akureyri, sem stýrir starfseminni og leiðir sameinaðan hóp.
„Við erum staðráðin í að vaxa enn frekar, skapa ný störf og laða að hæfileikafólk sem vill starfa í tæknigeiranum fyrir norðan og stuðla þannig að bættri stafrænni þróun á svæðinu og raunar landinu öllu. Sameiningin styrkir ekki aðeins þjónustuna við viðskiptavini Wise um allt land, heldur festir einnig Akureyri í sessi sem öflugan miðpunkt íslenskrar upplýsingatækni og stafrænnar þróunar.“ segir Rebekka.
UMMÆLI