Rakel Rún Sigurðardóttir stundar nám í félagsvísindum við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Þessa vikuna segir hún okkur frá reynsli sinni sem nemandi í HA.
Hvers vegna valdir þú félagsvísindi?
„Ég byrjaði reyndar á því að skrá mig í nútímafræði, en ég hef alltaf haft áhuga á samfélaginu og get verið alveg óþolandi í matarboðum þegar verið er að ræða álitamál. Þess vegna fannst mér ég eiga vel heima í námi sem kenndi mér um uppbyggingu samfélagsins og að hugsa gagnrýnt um þau mál sem eru í gangi hverju sinni.

Þó að ég hafi blómstrað í nútímafræði er þar boðið upp á gríðar mikið val um áherslur námsins og þannig leiddist ég smám saman yfir í félagsvísindin. Ég endaði á að skipta þangað yfir þar sem ég hef frekari tækifæri til að læra um það sem ég brenn mest fyrir, jafnréttismál og ýmis konar samfélagslega mismunun.
Ég vona svo að árangurinn af þessum tveimur námsleiðum verði að á endanum verði ég aðeins betri manneskja en áður en ég byrjaði.“
Hvernig var fyrsti dagurinn þinn í HA?
Hann var yfirþyrmandi, stressandi og langbesta ákvörðun sem ég hef á ævinni tekið! Starfsfólk HA og stúdentafélagið tóku gríðarlega vel á móti okkur og gerðu það að verkum að fyrsti dagurinn og vikan urðu svo miklu auðveldari og skemmtilegri.
Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
HA er einfaldlega einn af mínum uppáhalds stöðum. Þetta er persónulegur skóli þar sem er vel haldið utan um mann og af því hann er svo lítill myndast einstakt samfélag stúdenta. Ég hef kynnst mínu allra besta fólki í HA, fólki í mismunandi námi og deildum, sem er það allra dýrmætasta við skólann að mínu mati.
Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann?
Í fyrsta lagi: nýtið nýnemadagana vel! Mætið á viðburðina á vegum SHA og aðildarfélaganna og reynið að kynnast samnemendum. Bæði er það ótrúlega skemmtilegt en svo gerir það skólalífið mun auðveldara að þekkja fólkið sem verður með ykkur í náminu og geta leitað til þess fyrir ráðleggingar, pepp og ég tala nú ekki um hópverkefnin.

Í framhaldinu er nauðsynlegt að skipuleggja sig vel, ekki vera hrædd við að leita til kennara, starfsfólks og súdentafélagsins og að sjálfsögðu taka virkan þátt í háskólasamfélaginu, stúdentapólitíkinni og félagslífinu.
Þrjár ástæður af hverju þú valdir Háskólann á Akureyri?
Staðsetningin var stór ástæða fyrir valinu, ég hef búið á Akureyri lengi og langaði að stunda staðnám án þess að þurfa að flytja. Í öðru lagi hafði ég heyrt rosalega góða hluti um skólann, námið og félagslífið. Þriðja og stærsta ástæðan fyrir mig persónulega er sveigjanlega námið. Staðnám með mætingaskyldu er ekki raunhæfur kostur fyrir mig, en ég elska hinsvegar að hafa tækifæri til að mæta í stofu þegar ég get. Þess vegna var HA eini raunverulegi kosturinn fyrir mig og ég hef ekki séð eftir því eitt augnablik.
UMMÆLI