Október er mánuður Bleiku slaufunnar, sem er árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Segja má að átakið hafi náð hápunkti í dag, miðvikudaginn 22. október með Bleika deginum.
Samherji hefur í gegnum tíðina styrkt starfsemi Krabbameinsfélagsins með einum eða öðrum hætti og í byrjun bleika mánaðarins var öllum konum er starfa hjá félaginu færð Bleika slaufan.
Allur ágóði Bleiku slaufunnar rennur til fjölbreyttrar starfsemi Krabbameinsfélagsins, sem byggir starfsemi sína á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Undanfarin ár hefur Samherji sömuleiðis styrkt Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis í tengslum við Dömulega dekurdaga.
Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja segir að víðast hvar innan fyrirtækisins hafi byggst upp skemmtilegar hefðir í tengslum við þetta þarfa árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins.
„Hérna á skrifstofunni hafa starfsmenn lagt til bleikt meðlæti í morgunkaffinu á Bleika deginum, skreytt vinnustaðinn með bleiku og klæðst bleiku. Sömu sögu er að segja um aðrar starfsstöðvar félagsins víða um land. Í Sandgerði, svo dæmi sé tekið, eru bleikar veitingar, kaffistofan er bleik og starfsfólkið skartar bleikum fatnaði og bleiku skrauti. Með því að færa öllum konum er starfa hjá félaginu Bleiku slaufuna styrkjum við mikilvæga starfsemi Krabbameinsfélags Íslands, staðreyndin er því miður að krabbamein snertir allar fjölskyldur landsins með einum eða öðrum hætti,“ segir Anna María Kristinsdóttir á vef Samherja þar sem sjá fleiri myndir á deginum.


COMMENTS