Olíuboranir hefjast nú við Scoresbysund á Austur-Grænlandi, í um 600 kílómetra fjarlægð beint norður af Akureyri. Vísir greindi frá. Flugfélagið Norlandair er þegar byrjað að fljúga með olíuleitarmenn á svæðið þar sem flogið er á flugvöllinn Nerlerit Inaat (einnig þekktur sem Constable Point).
Aðgerðirnar eru á vegum bandarísks olíuleitarfélags, Greenland Energy Company, á svæði sem kallast Jameson Land. Olíuleitin fer fram á landi og hefur bandaríska olíuþjónustufyrirtækið Halliburton verið fengið til að annast boranirnar.
Þegar hefur skip flutt þungavinnuvélar og annan búnað á staðinn og stendur til að bora niður á 3,5 kílómetra dýpi. Líklegt telst að þjónustu við olíuleitina verði að einhverju leyti sinnt frá Íslandi en Norlandair annast áætlunarflug til Scoresbysunds tvisvar í viku allt árið. Sömuleiðis fór Norlandair í tvær sérferðir í leiguflugi með olíuleitarmenn inn á svæðið í sumar. Arnar Friðriksson, framkvæmdastjóri Norlandair, stillir þó væntingum í hóf og segir óvíst hvort mikil verkefni muni fylgja olíuleitinni á Grænlandi.


COMMENTS