Stofnun Farsældarráðs Norðurlands eystra

Stofnun Farsældarráðs Norðurlands eystra

30. október 2025 er stór dagur fyrir þjónustu og samvinnu í þágu barna á Norðurlandi eystra þegar Farsældarráð Norðurlands eystra verður formlega stofnað. Viðburðurinn fer fram í Hofi á Akureyri í hádeginu kl. 12:00 og verður haldinn með viðhöfn að viðstöddu öflugu samstarfsneti ríkis og sveitarfélaga á svæðinu og með nærveru hæstvirts mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundar Inga Kristinssonar, sem flytur ávarp.

Farsældarráðið er vettvangur fyrir samráð, samhæfingu og stefnumótun þjónustuaðila sem koma að málefnum barna í landshlutanum. Markmið ráðsins er að stuðla að samþættri og markvissri þjónustu sem tryggir börnum farsæld í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Við þetta tækifæri munu bæjar- og sveitarstjórar tíu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit) undirrita samstarfssamning sveitarfélaga um Farsældarráð Norðurlands eystra. Þá munu einnig æðstu stjórnendur stofnana ríkisins og annarra lykilþjónustuveitenda, þar á meðal SAk, HSN, Lögreglan á Norðurlandi eystra, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Laugum, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Framhaldsskólinn á Húsavík og Svæðisstöð íþróttahéraða UMFÍ og ÍSÍ, rita undir samstarfsyfirlýsingu þjónustuveitenda ríkis o.fl. um þátttöku og samstarf í Farsældarráði Norðurlands eystra.

„Við ætlum að hlusta betur – bæði hvert á annað og ekki síst á börnin sjálf,“ segir Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri Farsældarráðs Norðurlands eystra. „Við ætlum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.“ Auk þess bendir Þorleifur á að „Við gerum þetta saman og við gerum þetta fyrir börnin,“ segir í tilkynningunni.

Farsæld barna er sameiginlegt verkefni okkar allra. Með stofnun Farsældarráðs Norðurlands eystra er stigið stórt og markvisst skref í átt að betri stefnumótun um skilvirkari og samræmdari þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra í landshlutanum.

COMMENTS