Prenthaus

Öllu tjaldað á árshátíð VMA – 6 þjóðþekktir tónlistarmenn koma fram

Árshátíð Verkmenntaskólans á Akureyri verður haldin hátíðleg þann 24.febrúar næstkomandi, eins og ár hvert. Nemendafélag VMA, Þórduna, stendur ævinlega fyrir viðburðinum og sér alfarið um skipulagningu hans.
Árshátíðin samanstendur af dagskrá ásamt borðhaldi og á eftir fylgir ball sem stendur fram á nótt.
Það er greinilegt að ekkert hefur verið sparað í hátíðina þetta árið ef marka má listamennina sem koma til með að koma þar fram, en það eru þeir Erpur Eyvindarson, KÁ-AKÁ, GKR, Emmsjé Gauti, Bent og Páll Óskar.
Til viðbótar verða svo þeir Auddi Blöndal og Steindi Jr. einnig, en þeir munu sjá um veislustjórn í borðhaldinu.

Í viðtali við Kaffið segir Patrekur Óli Gústafsson, sem situr í stjórn nemendafélags VMA, að þau hafi einfaldlega ákveðið að forgangsraða öðruvísi en venjulega. Þau hafi ákveðið að spara sér meiri kostnað í kringum borðhaldið og því getað leyft sér að fá fleiri og stærri nöfn á ballið.

,,Við ákváðum að fara í Síðuskóla til að minnka miðaverðið og unnum alla vinnu í kringum þetta sjálf. Við erum að græja borðin og stólana sjálf héðan og þaðan, réðum einkakokk sem eldar matinn og matvælabrautin sér um að þjóna. Við náðum að minnka verðið úr 6900 í 4900″ segir Patrekur.

Aðspurður hvort að það hafi ekki verið mál að fá alla þessa tónlistarmenn til að koma fram segir hann það allt hafa gengið vel, en upprunalega stóð til að Úlfur úlfur kæmi fram þangað til að það gekk ekki upp.
,, Við vorum komin með hrikalegt line up… Úlfur úlfur, Emmsjé, Palli og svo auðvitað Steindi og Auddi sem veislustjórar. Þegar umboðasmaður Úlfs úlfs hringdi í okkur fór allt á fullt. Við hringdum eiginlega strax í Dóra K og bókuðum hann ásamt trommara. Svo fengum við tilboð frá umboðsmanninum að fá GKR og tókum við því. Þá þurftum við bara að finna einhver sem mundi negla þetta allt og kom ekkert annað til greina en Erpur og Bent sem eru bara með betri rappörum á landinu“ segir Patrekur.

Það er greinilegt að það stefnir í svakalega árshátíð hjá nemendum VMA, sérstaklega ef marka má miðasölu sem hófst í gær kl.10, en þau seldu rétt yfir 200 miða á klukkustund og 45 mínútum.
,,Við hvetjum fólk til þess að koma og kaupa miða sem fyrst því að það er alveg gríðarlega sala“ bætir Patrekur við.

Nánari upplýsingar um viðburðinn og miðasölu má nálgast hér. 

UMMÆLI