Með sendiráðið á hraðvali: 100 dagar af vitfirringu

Með sendiráðið á hraðvali: 100 dagar af vitfirringu

Vert er að taka fram að Rachael tjáir persónulegar skoðanir sínar og hún talar ekki fyrir hönd Fulbright eða Wilson stofnunnar.

Þann 2. maí mun Rachael Lorna Johnstone, prófessor við lagadeild Háskólans á Akureyri, halda erindi sem verður hluti af lögfræðitorgi HA. Þar mun hún fara yfir bæði persónulega upplifun sína í Bandaríkjunum og lagalegt sjónarhorn. Rachael fór til Bandaríkjanna, sem Fulbright Arctic Initiative IV styrkþegi, þann 29. janúar, til þess að taka þátt í starfi hjá Polar Institute, Wilson Center, hugveitu sem aðstoðar meðal annars við stefnumótun og þróun í heiminum. Rachael hefur birt margar greinar er varða norðurslóðir og heimskautarétt.

Í erindi sínu fjallar hún um fyrstu hundrað daga annarrar forsetatíðar Donalds Trumps, bandaríkjaforseta. Hún ræðir hvernig forsetatilskipunum er beitt til að komast framhjá þinginu og aðgerðir í trássi við úrskurði alríkisdómstóla. Auk þess ræðir hún skort á gagnsæi og ábyrgð ríkisstarfsmanna sem allt saman skapar ógn við stjórnarskrá Bandaríkjanna og réttarríkið. Rachael fylgdist með atburðum og hélt dagbók sem hún kallar „100 Days of Batshittery“ (100 dagar af vitfirringu).

Áður en Trump kom aftur til valda störfuðu um 130 starfsmenn við stofnunina Wilson Center en þann 3. apríl síðastliðinn voru allir nema fimm starfsmenn sendir í leyfi sem endaði svo með uppsögnum, í takt við það sem hefur gerst hjá öðrum stofnunum sem hafa orðið fyrir niðurskurði á vegum Elon Musk og DOGE, en markmið þeirra er að skera niður víðsvegar innan ríkisstofnana.

Starfi Rachael lauk því fyrr en á horfðist. Þetta var þó ekki það eina sem hún hafði áhyggjur af. Ríkisstjórn Trumps hafði ráðist í að rifta landvistarleyfum nemanda og rannsóknarmanna innan landsins ásamt því að senda fólk frá Venesúela og El Salvador aftur til heimalanda sinna undir því yfirskini að þau séu hluti af gengjastarfsemi.

Öryggi síns vegna gekk Rachael með myndir af landvistarleyfi og vegabréfi hvert sem hún fór ásamt því að vera með íslenska sendiráðið á hraðvali í símanum sínum. Hún segir þó að það hafi aldrei komið til þess að hún þyrfti að hringja þangað. Ásamt því gerir hún sér grein fyrir því að sem hvít menntakona sem er enskumælandi þá hafi hún verið í minni hættu að verða fyrir einhvers konar áreiti. Hún hafi þó hugsað til þess að vegna skrifa sinna áður fyrr, til dæmis um jafnrétti kvenna, þjóðarmorðssamninginn, frumbyggjarétt, loftlagsbreytingar og ýmis önnur álitamál sem gætu þau gengið gegn stefnu Trumps-stjórnarinnar.

Í upphafi voru þau höft lögð á Rachael að ef hún hún héldi einhverja opinbera fyrirlestra um rannsóknir sínar á meðan hún dvaldi, mætti hún aðeins tala undir merkjum Háskólans á Akureyri en ekki Wilson Center.

Á lögfræðitorgi þann 2. maí gefst því einstakt tækifæri til að heyra persónulega reynslu og lagalega greiningu Rachael Lorna Johnstone á þeim áskorunum sem hún upplifði og sá fyrir sér í bandarísku stjórnsýslunni.  Fyrirlesturinn verður haldinn í M101 í Háskólanum kl. 12:00-13:00 ásamt þess að vera í beinu steymi á vef Háskólans.

COMMENTS