Málstofa um norðurslóðir í breyttum heimi

Málstofa um norðurslóðir í breyttum heimi

Málstofa um öryggismál verður haldin í Háskólanum á Akureyri þann 28. maí næstkomandi. Málstofan heitir „Norðurslóðir í breyttum heimi“ og þar munu meðal annars flytja ávörp Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, og Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í málefnum Norðurslóða, ásamt ýmsum sérfræðingum í alþjóðamálum norðurheimskautsins.

Í tilkynningu frá HA segir um málstofuna: „Aukin spenna í alþjóðamálum hefur haft mikil áhrif á þróun mála á Norðurslóðum. Ríki sem þar eiga hagsmuna að gæta þurfa bæði að fylgjast vel með og vera reiðubúin að bregðast við örum vendingum á svæðinu. Á meðan hnattræn hlýnun ógnar umhverfi og samfélögum – og opnar skipaleiðir – þá hefur innrásarstríð Rússa í Úkraínu leitt til þess að vonir um friðsæl samskipti á Norðurslóðum hafa dvínað verulega.“

Sjónum verður beint að áhrifum stóraukinnar alþjóðlegrar togstreitu á málefni Norðurslóða, einkum með tilliti til örra loftslagsbreytinga, aukins hernaðarlegs mikilvægis svæðisins og hagsmuna Íslands.

Málstofan er samstarfsverkefni Norðurslóðanets Íslands, Varðbergs, Háskólans á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Fundurinn fer fram í stofu M101 í Háskólanum á Akureyri og einnig verður hægt að taka þátt í gegn um streymi.

Skráning er nauðsynleg og hægt er að gera það í gegnum þessa slóð.

COMMENTS