Akureyrarbær hafnar styrkbeiðni fyrir tónlistarhátíð í Vaglaskógi

Akureyrarbær hafnar styrkbeiðni fyrir tónlistarhátíð í Vaglaskógi

Bæjarráð Akureyrar hefur hafnað beiðni um 12 milljóna króna styrk vegna tónlistarhátíðar sem er fyrirhuguð í Vaglaskógi þann 26. júlí næstkomandi. Hljómsveitin Kaleo, sem hyggst gefa vinnu sína sem aðalflytjandi, stendur fyrir hátíðinni en Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og varaþingmaður, sótti um styrkinn fyrir þeirra hönd.

Kaleo hefur samkvæmt bréfi Jakobs lengi haft sér þann draum að halda hátíð undir formerkjunum Vor í Vaglaskógi en útgáfa þeirra pilta af laginu fræga er vel þekkt innan- sem utanlands.

Fjölmargir þekktir tónlistarmenn, þar á meðal Hjálmar, Júníus Meyvant og Sigrún Stella, eru einnig á dagskrá hátíðarinnar. Bæjarráðið veitti engan rökstuðning fyrir synjun á styrkbeiðninni.

Skipuleggjendur höfðu lýst yfir vonum um að hátíðin gæti laðað að allt að 5000 gesti og að hún yrði „umtalsverður búhnykkur sveitarfélaginu öllu, þ.m.t. hótelum, veitingastöðum, verslunum og
þjónustuaðilum“. Rétt er að geta þess að Vaglaskógur er í Þingeyjarsveit og ekki innan sveitarfélagsins – Akureyrarbæ. Áætlaður heildarkostnaður viðburðarins er sagður nálgast 50 milljónir króna.

COMMENTS