Í gær var boðið til vígslu- og opnunarhátíðar á nýrri A-álmu Glerárskóla. Þar flutti Eyrún Skúladóttir skólastjóri stutt ávarp en síðan var boðið upp á kaffiveitingar og gestir gátu skoðað endurnýjað húsnæðið og þær breytingar sem gerðar hafa verið á vinnuumhverfi nemenda og starfsfólks.
Markmið framkvæmdanna við Glerárskóla var að hanna og endurgera skólahúsnæðið þannig að það sé heilsusamlegt og þjóni starfseminni eins og best verður á kosið. Skólinn uppfyllir nú allar þær kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis í dag þegar kemur að hljóðvist, eldvörnum, loftgæðum og tæknimálum í kennslu, svo eitthvað sé nefnt. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar, þar segir einnig:
Áhersla var lögð á að nýta neðri hæð A-álmu mun betur en verið hefur með því að lækka jarðveg á milli álma skólans og koma fyrir stórum gluggum og aðgengi að görðum frá rýmum á neðri hæðinni. Þessar breytingar og viðbygging við tengigang milli álmanna gerðu mögulegt að koma fyrir allri verknámskennslu á neðri hæðinni.


Á efri hæðinni er öll starfsmannaðstaða, móttaka skólans, funda og sérkennslurými auk kennslurýma. Framkvæmdin var 3. áfangi heildarendurbóta húsnæðis Glerárskóla.Fyrsta áfanga lauk í september 2019 þegar B-álma var tekin aftur í notkun. Annar áfangi fólst í endurbótum á D-álmu sem var tekin í notkun í ágúst 2020 og neðri hæðin þar um áramótin 2020-2021. A-álman var tilbúin til skólahalds haustið 2024 en áfram var unnið við ýmsan frágang framvæmda.
Framkvæmdin fól í sér öll rif og heildarendurbætur á A-álmu skólans. hluta tengigangs og inngarða á milli A- og C-álmu og austan A-álmu, einnig var byggð nýbygging á milli A- og C-álmu. Um var að ræða heildarendurnýjun utan- og innanhúss, þar með talið á þaki og þakrými, og einnig lóðarfrágangur sem útboðsgögnin tóku til. Þak var endurnýjað að allmestu leyti. Steypt þakplata er endureinangruð og þak er klætt upp á nýtt og settar nýjar þakrennur. Báðar hæðir A-álmunnar voru hreinsaðar alveg út og allt endurnýjað. Lagður var gólfhiti og vatnslagnir endurnýjaðar ásamt öllum raf- og smáspennulögnum. Komið var fyrir nýrri loftræstingu. Inngarðar milli A- og C-álmu, og einnig austan við álmuna, voru gerðir upp með nýjum aðkomutröppum og þjónusturömpum.


COMMENTS