Sparisjóður Höfðhverfinga á Grenivík, sem er einnig með útibú á Akureyri, og Sparisjóður Strandamann á Hólmavík verða sameinaðir undir nafninu Smári sparisjóður. Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga og Sparisjóðs Strandamanna hafa undirritað samrunaáætlun sem borin verður undir á hluthafafundi síðar í sumar. RÚV greindi frá.
Jón Ingvi Árnason, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga, segir að ávinningurinn felist fyrst og fremst í öflugri sparisjóði sem verði stökkpallur til frekari vaxtar. KEA verður helsti bakhjarl hins sameinaða sjóðs og mun leggja til aukið hlutafé til að tryggja vöxtinn.
Þrátt fyrir smæð sjóðanna er fjárhagsstaðan sögð traust. Sameiningin er talin nauðsynleg til að mæta auknum kröfum í flóknu regluverki og til að geta veitt fyrirtækjum betri þjónustu. Jón Ingvi áréttar að starfsemin muni áfram byggja á hugsjón sparisjóðanna um stuðning við nærsamfélagið.


COMMENTS