Davíð Máni gefur út The Mancave TapesMynd/Andrés Rein Baldursson

Davíð Máni gefur út The Mancave Tapes

Akureyrski tónlistarmaðurinn Davíð Máni hefur sent frá sér sína fyrstu sólóplötu og er hún aðgengileg á öllum helstu streymisveitum. Um er að ræða 11 laga plötu sem flakkar milli alls kyns stefna rokksins, þar má nefna grunge, blús, pönk og fleira. Blásið var til ókeypis útgáfutónleika í Ungmennahúsinu Rósenborg í gærkvöldi. Mörg laganna voru samin af Davíð á unglingsaldri og eru sum lögin unnin úr efni sem hefði átt að verða að Miomantis lögum en enduðu á þessari plötu. Sjálfur sá Davíð um söng, gítar, bassa, og trommur á öllum lögum plötunnar, gestir að norðan hjálpuðu þó við gerð plötunnar.

Ari Orrason, sem var með Davíð á fyrsta single plötunnar, Pool Of Sorrow, söng bakraddir og raddanir á því lagi. Aðrir gestir voru Hallgrímur Jónas Ómarsson sem tók upp, hljóðblandaði og masteraði plötuna og kemur fram á laginu Vetrar Blús með gítar sóló sem má líkja við Zakk Wylde að sögn Davíðs.

Platan er mikið samvinnuverkefni en það endurspeglast einnig í plötuumslaginu sem er unnið af akureyrska listamanninum Oddi Atla.

„Langstærsta lagið er lokalag plötunnar, Starlet, þar sem Davíð kemur fram með eitt af efnilegustu samstörfum tónlistarsögu Akureyrar (eða allavegana rokk tónlistarsögu) með honum á því lagi koma fram Daníel Alpi og Alexander úr dauðarokks hljómsveitinni, Dream The Name ásamt gítarleikaranum Daníel Hrafn, fyrrum samstarfsaðilli Davíðs í Miomantis, og gítarleikari hljómsveitarinnar SÓT sem spilar rúmlega 2 mínútna gítarsóló í lok lagsins,“ segir í tilkynningu um útgáfu plötunnar.

Textar Davíðs eru persónulegir og fjalla um málefni eins og þunglyndi, ást, fíkn og einhverfu. Lagið „Hang Man“ má túlka sem samtal við eigið þunglyndi á meðan „Misunderstood“ fjallar um upplifun þess að vera einhverfur og misskilinn af samfélaginu.

Plötuna má finna á öllum helstu streymisveitum þar á meðal Spotify

COMMENTS