Afar fjölsótt og vel heppnuð Hríseyjarhátíð var haldin um síðustu helgi. Á kvöldvöku laugardagskvöldsins var tilkynnt um úrslit í samkeppni um nafn á fjarvinnusetrið í eyjunni.
Á vef Akureyrarbæjar kemur fram að nafnið „Fjarbúðin“ hafi orðið fyrir valinu en tvö stungu upp á því heiti; Hallgrímur Helgason rithöfundur og Anna Guðmundsdóttir. Alls bárust 57 tillögur að nafni á fjarvinnusetrið frá 35 einstaklingum en stundum var um sömu tillöguna að ræða eins og í tilviki Önnu og Hallgríms. Á vef Akureyrarbæjar segir einnig:
Ýmsar skemmtilegar skýringar bárust á tillögunum en vinningstillagan felur í sér skírskotun til bæði fjarbúðar sambúðarfólks og einnig til verbúðar.
Fjarbúð má skilgreina sem svo að átt sé við að einstaklingar sem eru í staðfestri samvist búi ekki saman um hríð, af einhverjum ástæðum, til dæmis vegna atvinnu annars þeirra sem krefst langvarandi fjarvista frá hinu án þess þó að um skilnað að borði og sæng sé að ræða. Verbúð er hins vegar dvalarstaður fiskverkafólks í takmarkaðan tíma eða íverustaður sjómanna á vertíð. Fjarbúð á því vel við um fólk sem stundar vinnu sína fjarri heimili sínum til lengri eða skemmri tíma.


COMMENTS