Eins og vafalaust margir Akureyringar hafa tekið eftir er ekki lengur opið allan sólahringinn í verslun Krambúðarinnar við Borgarbraut. Síðan árið 2005 hafði verslunin verið opin allan sólahringinn en nýverið var gerð breyting á því og verslunin opin mánudaga til föstudaga 7:30-23:30, laugardaga 8:00-23:30 og sunnudaga 9-23:30.
Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Krambúða og 10-11, segir að með kaupum Orkunnar á Samkaupum og með sameiningu Samkaupa og Atlaga ehf. (áður Heimkaup) undir kenntölu Samkaupa hafi forsendur breyst. Innan félagsins Drangar eru nú vörumerkin Samkaup og vörumerkin sem því tilheyra (Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland, Heimkaup, 10 11 og Prís), Lyfjaval og Orkan sem er einnig eigandi bílaþvottafyrirtækisins Löðurs.
„Extra í Kaupangi er opin allan sólarhringinn og þar hefur aðsóknin verið mikil. Hún var minni á Borgarbrautinni og við mátum það svo að nóg væri að félagið væri með eina verslun opna allan sólarhringinn. Extra búðin er miðsvæðis á Akureyri og nær vonandi að þjóna því hlutverki sem Krambúðin gerði áður,“ segir Svanur.


COMMENTS