Landsliðskonan og Akureyringurinn Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, er á leið út í atvinnumennsku samkvæmt heimildum Fótbolti.net. en mbl.is greindi einnig frá. Þá er búist við því að Sandra verði tilkynnt hjá nýju félagi á fimmtudaginn.
„Ekki hafa fengist upplýsingar um land eða félag. Allt er frágengið nema læknisskoðun og svo verður sóknarmaðurinn tilkynnt hjá nýju félagi,“ segir á Fótbolti.net.
Sandra María hefur verið lykilleikmaður Þórs/KA frá því hún sneri heim úr atvinnumennsku árið 2021 en hún lék áður með Slavia Prag í Tékklandi og Bayer Leverkusen í Þýskalandi. Á þessum tíma hefur hún skorað 46 mörk í 69 leikjum í Bestu deildinni, þar af 10 mörk í 14 leikjum á þessu tímabili. Í fyrra varð hún markahæst í deildinni með 22 mörk í 23 leikjum.
Á ferlinum hefur hún tvívegis orðið Íslandsmeistari með Þór/KA og á að baki 57 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað sjö mörk.
Þór/KA situr nú í 5. sæti Bestu deildarinnar, þremur stigum á eftir Val sem hefur leikið einum leik meira og fimm stigum fyrir ofan Stjörnuna. Næsti leikur liðsins er gegn Fram á laugardag.
„Ekki hafa fengist upplýsingar um land eða félag. Allt er frágengið nema læknisskoðun og svo verður sóknarmaðurinn tilkynnt hjá nýju félagi,“ segir á Fótbolti.net.


COMMENTS