Hulda B. Waage og Kraftlyftingafélag Akureyrar á Hjalteyri

Hulda B. Waage og Kraftlyftingafélag Akureyrar á Hjalteyri

Í gömlu verksmiðjunni á Hjalteyri er Kraftlyftingafélag Akureyrar starfrækt og ekki er hægt að segja annað en það séu miklir reynsluboltar sem hafa umsjón með og yfirsýn yfir starfsemina. Meðal þeirra er Hulda B. Waage kraftlyftingakona, en hún sér um þjálfun hjá félaginu og á að baki fjölmarga titla í greininni. 

Hulda segir að lyftingar séu fyrir öll og mikilvægt sé að muna að tilgangurinn er alltaf fyrst og fremst að hafa gaman.

„Ef þér finnst gaman að lyfta, gerðu það þá. Ég held að lyftingar og styrktarþjálfun séu fyrir öll en að sama skapi held ég að afreksmennska sé ekki fyrir öll. Ef þú vilt byrja í lyftingum og fara í afreksmennsku er best að hafa í huga að íþróttir eru ekki sanngjarnar. Ef við munum það þá getum við notið og skemmt okkur vitandi að það er ekki víst að þú fáir að uppskera eins og þú mögulega sást fyrir þér. Ef þú vilt fara í lyftingar fyrir sterkan kropp og sérstaklega sterk bein þá er það um að gera.“

Fékk aldrei neinn afslátt

„Ætli ég sé ekki stoltust af því að hafa lagt inn vinnuna og aldrei fengið neitt upp í hendurnar á ferlinum. Ég vann fyrir öllum titlum og upp á gramm náði ég lágmörkum til að fá að keppa alþjóðlega. Reyndar er ég líka mjög stolt af síðasta „æfingatotali“ sem ég tók, sem var 260,5 kíló í hnébeygju og 180 kíló í bekk.“

Hulda keppti lengi í kraftlyftingum og segir hún drifkraftinn alla tíð hafa verið augnablikin þegar hún uppskar laun erfiðis síns og fann sig verða sterkari. Hún segir tæknivinnuna það skemmtilegasta við íþróttina og leggur áherslu á að ef tæknin sé ekki góð þá verði uppskeran minni og ferillinn styttri fyrir vikið. En með góðri tæknivinnu, segir Hulda, er hins vegar hægt að vera sífellt að bæta sig og þannig eiga lengri og farsælli feril en ella.

„Ég var aldrei mikil keppnismanneskja og fannst oft erfitt að vera í því hlutverki en ég lærði af góðum manni, Skúla Óskarssyni, sem tók mig einu sinni á teppið og sagði; „Það er heiður að fá að uppskera fyrir framan áhorfendur og það þarf að þakka þeim sem fylgjast með og horfa á.“ Svo fyrir utan eiginmanninn, flottu stelpurnar mínar, foreldra og systur þá var það rödd Skúla heitins sem var olía á eldinn innra með mér.“

Hulda býr með fjölskyldunni sinni á Akureyri og segir það dásamlegt að fá að verja tímanum á Hjalteyri þegar hún er að þjálfa eða æfa, þar sem staðurinn sé alveg einstakur. Kraftlyftingafélagið, sem er fjölgreinafélag, fagnar 50 ára afmæli í ár.

Fullkomin aðstaða fyrir íþróttafólk á öllum aldri

Rúmgóðum húsakynnunum er skipt niður í sali fyrir ólympískar lyftingar, kraftlyftingar og almenna styrktarþjálfun. Hulda segir aðstöðuna vera fullkomna fyrir íþróttafólk á öllum aldri. Tækjakosturinn hjá Kraftlyftingafélaginu er ekki af verri endanum en mikið af honum kemur frá Gym80 í Brautarholti sem var áður í eigu hins góðkunna kraftlyftingarmanns Jóns Páls Sigmarssonar. Nóg er um fjölbreyttan aflraunabúnað og ýmislegt annað sem má grípa í fyrir styrktarþjálfun. 

Á svæðinu eru stangir fyrir lyftingar og kraftlyftingar frá 5 kílóum og upp í 20 kíló, sem og töluvert magn af lóðarplötum. Þar að auki er upphitunar- og teygjusalur og síðast en ekki síst klifurveggur, þar sem má finna yfir þrjátíu klifurleiðir. Fyrir utan æfingarhúsnæðið má einnig finna langstökksgryfju, þannig að það er ljóst að úr nægu er að moða hjá félaginu.

Aðspurð segir Hulda alltaf eitthvað spennandi vera framundan hjá þeim í Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Eins og sakir standa stefna þau meðal annars á að efla mótahald hjá félaginu og bæta í þjálfarateymið, en þau eru dugleg að segja frá þessu og öðrum spennandi verkefnum á Facebooksíðu félagsins. Hulda hvetur sérstaklega foreldra til þess að fylgjast með starfseminni og taka þátt með börnunum, en sem dæmi eru tímar fyrir þriggja til fimm ára börn á sunnudagsmorgnum. Hún segir það vera dásamlegt að taka á móti minnstu krílunum og sjá einlægu gleðina sem sprettur fram þegar þau taka eftir framförum hjá sér. 

Ný stundatafla fyrir haustið hjá Kraftlyftingafélaginu tekur gildi 1. september næstkomandi með fjölbreyttri dagskrá. Félagið býður meðal annars upp á grunnþjálfun fyrir öll kyn og í Lyftingarskólanum er boðið upp á aldursskipta þjálfun fyrir börn og ungmenni. Hulda leggur áherslu á að öll séu velkomin í Kraftlyftingafélag Akureyrar á Hjalteyri og hvetur fólk til þess að kíkja í heimsókn til þeirra – það er alltaf heitt á könnunni!

COMMENTS