Jónína Björg Helgadóttir sýnir í Mjólkurbúðinni

Jónína Björg Helgadóttir sýnir í Mjólkurbúðinni

Sýning Jónínu Bjargar „Brjóta. Breyta“ opnar laugardaginn 27. september næstkomandi í Mjólkurbúðinni á Akureyri. Þetta er áttunda einkasýning Jónínu Bjargar, sem hefur verið starfandi myndlistarmaður frá því að hún útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2015.

Verk hennar eru fígúratív, með mikla áherslu á konuna, tilfinningu og náttúruna. Fyrir utan einkasýningar hefur Jónína tekið þátt í fjölda samsýninga, erlendis og hér heima. Verk eftir hana má finna í persónulegri og opinberri eigu.

Jónína Björg segir að verkin, sem eru olíumálverk máluð annars vegar á striga og hins vegar á við, séu mjög persónuleg. „Ég mála fígúratív málverk út frá eigin hugarheimi og tilfinningum. List hefur alltaf gert mér kleift að gera tilfinningar mínar og hugsanir sýnilegar. Jafnvel þær sem ég er ekki meðvituð um fyrr en ég sé þær á striganum. Þó að þessi verk séu persónuleg fyrir mér hef ég alltaf mestan áhuga á að heyra hvað áhorfendur sjá í verkunum. Ég er búin að koma mínu frá mér og fólk með aðra reynslu sér aðra hluti. Eða það tengir við verkin og upplifir þau svipað og ég, sem er líka fallegt.“

Á þessari sýningu má finna meðal annars vatn, þara og konur, sem Jónína vinnur mikið með. Form verkanna er þó að breytast, en þar sem áður voru ferkantaðar plötur og strigar eru nú líka hálfhringir og önnur form úr timbri sem grunnur fyrir olíumálninguna. „Nú er ég að vinna með formin sem hafa oft verið áberandi hjá mér, nema þau virðast hafa stokkið út úr striganum og eru nú að eignast eigið líf. Ég hef verið að vinna meira með timbur dags daglega, og byrjaði að saga út þessi form sem hingað til hafa verið málaðir fletir á striga. Nú eru sum verkanna samsett úr þessum plötum.

Hún segir frelsi í því að geta sett saman fleiri einingar sem eitt verk, því þá sé hægt að splæsa saman ólíkum hugmyndum og mynda tengsl þeirra á milli. „Þessar myndir koma til mín fyrst í hversdeginum, poppa upp í hugann. Svo kem ég á vinnustofuna og byrja að setja saman myndir úr huganum og sjá hverjar eiga að hanga saman sem eitt verk. Ég reyni að pæla sem minnst í því og leyfa þessu bara að gerast, þá flæðir þetta fram óhindrað. Ég hef mjög gaman af þessu ferli, sem hefur tekið mig tíma að sætta mig við og læra inn á.“

Sýningaropnun er sem fyrr segir laugardaginn 27. september milli klukkan 14 og 17 í Mjólkurbúðinni, Kaupvangsstræti 12 á Akureyri. Sýningin stendur til 5. október og það er opið um helgar frá klukkan 14 til 17.

COMMENTS