„Risapartýtjald reist á Akureyri fyrir Aktóberfest“

„Risapartýtjald reist á Akureyri fyrir Aktóberfest“

Aktóberfest Akureyrar er stærsta bjórhátíð Norðurlands. Hátíðin dregur nafnið sitt af Októberfest sem er þýsk þjóðhátíð með yfir 200 ára sögu, þar sem tónlist, dans, matur og bjór sameinast í einni stórri veislu. Nú er komið að Akureyri að taka við keflinu því laugardaginn 11. október verður Víking Brugghús Portið sett í sannkallaðan Oktoberfest gír. Við settumst niður með skipuleggjendum, þeim Halldóri Kristni og Davíð Rúnari, til að forvitnast nánar um hátíðina:

Hvað er Aktóberfest Akureyrar?

„Þetta verður mögulega stærsta Októberfest sem haldið hefur verið á Norðurlandi. Við ætlum að bjóða upp á ekta Októberfest-stemningu, bæði í mat, drykk og dagskrá. Gestir mega búast við lifandi tónlist, fjölbreyttri afþreyingu, leikjum og dansi fram á nótt. Þetta verður hátíð þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er að njóta bratwurst og pretzel, taka þátt í leikjum eins og King of Cornhole eða einfaldlega að skála með vinum í góðum félagsskap.“

Hátíðin verður haldin í porti Víking Brugghús og segja skipuleggjendur að svæðið passa vel fyrir stemninguna. Risatjaldi verður komið fyrir með borðum og stólum og verður breytt í þýskan hátíðarsal með nóg af pláss fyrir gesti og tónlistarmenn. Þeir tónlistarmenn sem munu meðal annars stíga á svið verða Hr. Eydís, Úlfur Úlfur, Gunni Óla úr Skímó og DJ Ayobe. Guðni Braga verður með Partybingo og Karaoke auk þess sem boðið verður upp á bratwurst, pretzel, bjórþamb, skíðaskot og keppnina King of Cornhole.

Svæðið opnar klukkan 17:00 á laugardaginn og miðasala fer fram í gegnum Tix.is, einnig geta hópar haft samband við skipuleggjendur á Facebook og bókað þar.

„Gestir mega búast við skemmtilegasta degi ársins. Þetta verður kvöld fullt af tónlist, hlátri, leikjum og gleði. Við viljum að fólk komi í rétta gírnum – jafnvel í lederhosen og með októberfesthatta en Partýlandið hér á Akureyri er einmitt með mikið af búningum og fylgihlutum til sölu bæði fyrir karla og konur. Að þessu tilefni við viljum að fólk fari all inn og taki þátt í alvöru Októberfest partýi,“ segja skipuleggjendur að lokum.

COMMENTS