Jólaljós og lopasokkar – „Nafn sem enginn getur munað“

Jólaljós og lopasokkar – „Nafn sem enginn getur munað“

Söng- og leikkonan Jónína Björt Gunnarsdóttir er í óða önn að undirbúa sína árlegu jólatónleika, „Jólaljós og lopasokkar“. Undirbúningurinn er þó með öðru sniði en áður því Jónína eignaðist lítinn dreng þann 30. september síðastliðinn. Hún segir móðurhlutverkið vissulega vera aðalverkefnið þessa dagana, en það komi ekki í veg fyrir að tónleikarnir verði haldnir.

„Það má alveg segja að það sé nóg framundan,“ segir Jónína Björt. Auk þess að sinna móðurhlutverkinu kemur hún fram á tónleikunum „Rokkland 30 ára“ þann 1. nóvember, ásamt kórnum sem hún stýrir, Sönghópnum Rok. Þá mun hún einnig taka þátt í leiksýningunni Birtíngur hjá Leikfélagi Akureyrar á nýju ári.

Hátíðlegt, huggulegt og kósý

Þetta er í fjórða sinn sem hún heldur jólatónleikana sem bera hið óvenjulega nafn „Jólaljós og lopasokkar“. Aðspurð um nafnið segist hún hafa verið að leita að einhverju notalegu. „Svona hugsunin við arineldinn, með heitt kakó í ullarsokkum. Úr varð þetta nafn sem enginn getur munað,“ segir Jónína glettin.

„Það hefur skapast ákveðið grín í kringum það t.d. kynnti Bibba á Brávallargötunni tónleikana á samfélagsmiðlum í hittiðfyrra og sagði fólki að fara og sjá Jólatré og nælonsokka – hægt væri að ná sér í miða inn á mast.is. Að lokum þurfti Mast að koma með yfirlýsingu vegna fjölda fyrirspurna um jólatónleikana, að svo væri ekki, tónleikarnir væru í sölu á mak.is.“

Áheyrendur mega búast við að stemningin verði „hátíðleg, hugguleg og kósý“. Efnisskráin verður blanda af lögum sem allir þekkja og efni sem áheyrendur hafa líklega aldrei heyrt. „Ég hef alltaf fengið mesta hrósið að lagavalið sé svo skemmtilegt og fittandi,“ segir hún.

Það er alltaf eitthvað nýtt á hverju ári. Í ár fær hún til sín þau Unu Torfa og Svavar Knút sem gestasöngvara og í fyrsta sinn verður barnakór með í flutningnum.

Mikið jólabarn með uppáhalds hefðir

Jónína Björt er mikið jólabarn og elskar jólatónlist. Hún játar að byrja yfirleitt mjög snemma að hlusta á jólalög og þá sérstaklega í ár þar sem undirbúningur tónleikanna hófst strax í apríl/maí vegna óléttunnar. Hún hefur gaman af fjölbreytninni í jólatónlist, allt frá gömlum lögum og powerballöðum yfir í klassíkina. „Þegar ég heyri t.d. bjöllurnar í fyrsta lagi Andrea Bocelli á disknum Sacred Arias þá veit ég að nú eru jólin að nálgast, pabbi hlustar svo mikið á hann um jólin.“

Aðspurð um uppáhalds jólalag nefnir hún „Vetrarsól“, sem hún tengir sterklega við jólin, þótt það sé ekki beint jólalag. Einnig stendur henni nær lagið „Um jólin þú ert með mér“ en það er lag úr erlendum söngleik sem besta vinkona hennar samdi íslenskan texta við árið 2015 þegar afi Jónínu lést rétt fyrir jólin.

Fyrir utan tónlistina eru jólahefðirnar í hávegum hafðar. „Laufabrauðsgerð er ómissandi partur á aðventunni,“ segir hún. „Svo elska ég þegar jólatréð er skreytt 23. desember!“

Hægt er að næla sér í miða á tónleikana Jólaljós og lopasokkar á MAK.is

COMMENTS