Leikritið Elskan er ég heima? í Samkomuhúsinu:   Ádeila á nostalgíudýrkun?

Leikritið Elskan er ég heima? í Samkomuhúsinu: Ádeila á nostalgíudýrkun?

Leikverkið Elskan er ég heima? eftir breska leikskáldið Laura Wade hefur hafið göngu sína í Samkomuhúsinu á Akureyri undir leikstjórn Ilmar Kristjánsdóttur. Leikarar eru Edda Björgvinsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Hólmfríður Hafliðadóttir, Ólafur Ásgeirsson, Urður Bergsdóttir og Vigdís Halla Birgisdóttir. 

Verkið fjallar um Jonna og Gunnu, ungt par sem tekur þá ákvörðun að umbreyta lífi sínu algjörlega og byrja að lifa í takt við gildi og viðmið sjötta áratugarins. Leiksýningin einkennist af víxlverkun gamansemi og alvara. Parið skapar sér veruleika í anda liðinna tíma, þar sem retro húsgögn og aðrar tímaskekkjur sem einkenndu líf og tilveru fólks á sjötta áratugnum ráða ríkjum.

Í gegnum leikritið fá áhorfendur að fylgjast með parinu takast á við þær áskoranir sem fylgja þessari róttæku ákvörðun og spurningin hvort allt hafi raunverulega verið betra í gamla daga vofir yfir leiksviðinu. Leikmyndin var eftirtektarverð og vel útfærð, hún styður vel við undirliggjandi þemu leikverksins og virkaði sem sjónrænt aðdráttarafl sem dregur gesti út í sal beinustu leið inn í stemninguna á heimili Jonna og Gunnu.

Minningar um betri tíð eru oft minningar afmarkaðra samfélagshópa, til dæmis hvítra karlmanna í forréttindastöðu, sem er haldið á lofti í sögubókum og skapa þannig oft skakka birtingarmynd af því hvernig fortíðin var raunverulega. Svarið við spurningunni hvort allt hafi verið betra áður fyrr er hér því svarað með mjög einlægu nei-i. Reyndar má velta því upp hvort þessi spurning sé orðin að hálfgerðri klisju – úrelt og rómantíseruð. Býður spurningin upp á nýtt framlag inn í samtalið um viðmið og gildi í samtímanum, ástandið í heiminum og samfélagsbreytingar? Eða höfum við kannski spurt, krufið og svarað þessari spurning nógu oft? Mögulega er leiksýningin Elskan er ég heima? meðvituð gagnrýni á þessa nostalgíudýrkun.

Dæmi hver um sig, hér má kaupa miða á sýninguna.

COMMENTS