Vikar Mar listamaður hefur opnað barinn LEYNI í göngugötunni þar sem Apótekarinn var síðast til húsa. Þar var einnig Stjörnu-Apótek opnað árið 1973, þannig það má segja að húsnæðið eigi sér langa og lyfjaða sögu. Barinn LEYNI táknar þannig ákveðin kaflaskipti í sögu miðbæjarins á Akureyri.
Vikar er ekki nýliði þegar kemur að bar- og skemmtanalífinu og hefur verið með menningarstofnunina Leynibarinn á Hjalteyri í nokkur ár. „Leynibarinn á Hjalteyri er í raun bara kaffistofan á vinnustofunni minni, sem sagt mjög óopinber. Þar hefur alls konar stemning og vitleysa fengið að vaxa svolítið frjálst og nú langar mig rosalega að taka þá hugmynd og stækka hana – sama sálin, bara aðeins stærra leikfang.“
Ákvað að slá til eftir að hann fékk teikningar af barnum í hendurnar.
„Eftir að hafa dúllað mér hér og þar á börum kviknaði hjá mér löngun til að opna minn eigin bar. “Vikar lýsir því síðan hvernig fyrrum Apótekara húsnæðið hafi legið vel við höggi þegar það losnaði og í framhaldinu hafi boltinn einfaldlega byrjað að rúlla: „Þegar ég sá að Apótekið væri að losna hugsaði ég bara já, akkúrat þetta. Ég fékk síðan Stikuna teiknistofu til þess að teikna upp hvernig væri hægt að koma bar fyrir í rýminu og mér leist strax hrikalega vel á útkomuna – þetta leit einfaldlega of vel út til þess að láta ekki slag standa.“
Vikar var með hörku hóp á bak við sig í framkvæmdunum. Það tók þau ekki nema þrjá mánuði að umbreyta staðnum og gera hann klárann.
„Það hefur verið hópur duglegra manna og kvenna sem unnu hérna tólf tíma dags, sjö daga vikunnar og þetta hefði aldrei orðið að veruleika án þeirra.“ Veitingastjóri LEYNI og gamall skólabróðir Vikars úr Þelamerkurskóla er Helgi Pétur. „Hann er algjör reynslubolti í bransanum, þannig LEYNI er ekki bara hugmynd um einhvern stað heldur fyrst og fremst hópur af fólki sem veit nákvæmlega hvað það er að gera.“
Aðspurður segir Vikar vonast til þess að skapa strangheiðarlega bar-stemningu. „Í fremri salnum á fólk að geta setið að sumbli og spjallað, en innri salurinn verður aftur á móti notaður meira fyrir ýmsa viðburði og lifandi tónlist.“ Framboð veiga er ekki af verri endanum, á barnum eru þrettán bjórkranar og síðan verður boðið upp á vandað úrval vína og kokteila.
LEYNI er opinn frá klukkan 13.00 til 01.00 á virkum dögum og frá klukkan 13.00 til 03.30 um helgar. Kjörið tækifæri bæði fyrir heimamenn höfuðborgar norðursins, sem og aðkomufólk, að gera sér glaðan dag og fá sér einn kaldann á þessari kærkomnu viðbót í miðbæ Akureyrar.
Staðurinn opnar klukkan 22.00 í kvöld föstudaginn 5. desember og eru allir velkomnir. Það er 22 ára aldurstakmark.


COMMENTS