Sarpur.is er rafrænn gagnagrunnur safna á Íslandi og þar kennir ýmissa grasa. Þar eru meðal annars varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni.
Á meðfylgjandi mynd sem er varðveitt hjá Minjasafninu á Akureyri sést fjölskylda sitja að snæðingi á jóladag árið 1906. Ljósmyndin var tekin af Bárði Sigurðssyni (1877-1937), ljósmyndara og bónda, í torfbæ í Haganesi á Mývatni og er ein af hans þekktustu ljósmyndum.
Þetta er að öllum líkindum ein elsta ljósmynd sem til er af íslensku sveitafólki að snæða við borð. Myndin er einkar merkileg þar sem torfbæjarmenningin fól í sér að flestir íbúar borðuðu mat úr öskum á rúmstokkunum og því er greinilega verið að fanga hátíðarstund á filmu þetta kvöld árið 1906, þegar öll fjölskyldan er saman komin við borðið.
Á Sarpi segir enn fremur um ljósmyndina:
„Myndin er tekin á jólakvöld 1906 með flassi sem Bárður hafði fengið frá frændum sínum í Halldorson Company í Chicago. Það var á stærð við stóra skjalatösku og er það var opnað strekktist á hvítu klæði úr asbesti, en í flassinu var búnaður til að kveikja blossa, sem var framkallaður af magnesíum blönduðu púðri, sem brann inni í öllu flassinu og gaf mikla birtu í smá stund. Bárður hafði árið áður tekið álíka mynd, á sama stað, en hafði þá ekki flassið til þess að lýsa upp baðstofuna og er sú mynd langt frá því að gefa eins mikil áhrif af þrívídd sökum myrkurs.“


COMMENTS